146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

vextir og verðtrygging o.fl.

216. mál
[21:23]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo ótrúlega margt sem ég þarf að leiðrétta í þessu máli. Í fyrsta lagi er ég ekki ötul baráttukona gegn gengistryggðum lánum, bara til að hafa það alveg á hreinu. Ef þið kynnið ykkur raunverulega það sem barátta mín snerist um — hvort þetta hafi verið lánasamningur eða leigusamningur, ég er ekki ötul baráttukona gegn því. Þar fyrir utan er ég ekki á þeim forsendum, út af minni baráttu, í pólitík. Kosningar voru haldnar í október, heimildarmyndin, sem hv. þingmaður vitnar í, var sýnd í janúar, þannig að ég passaði mig sérstaklega á því að nota þetta mál og mín persónulegu mál ekki í kosningunum, bara til að hafa það alveg á hreinu. Ég er ekki hér á forsendum minna hagsmuna eða annarra sérhagsmuna.