148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

köfun.

481. mál
[12:05]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég flyt hér nefndarálit um frumvarp til laga um köfun. Sennilega eru fáir þingmenn sem hafa reynslu af köfun hér inni, ég er ekki einn í þeim hópi. Við gerum okkar besta.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Frey Björnsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Einar Á.E. Sæmundsen og Lilju Jónasdóttur frá þjóðgarðinum á Þingvöllum og Kristínu Helgu Markúsdóttur, Ólaf Briem og Magnús Dige Baldursson frá Samgöngustofu.

Nefndinni bárust líka umsagnir frá Dive.is, Landhelgisgæslunni og þjóðgarðinum á Þingvöllum og Samgöngustofu.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði ný heildarlög um köfun í atvinnuskyni í stað gildandi laga nr. 31/1996, um köfun.

Gildandi lög um köfun einskorðast við leyfi til atvinnuköfunar. Gildissvið frumvarpsins er aftur á móti opnara og getur tekið til áhugaköfunar. Fram kom í umsögnum að nauðsynlegt væri að afmarka gildissvið laganna með skýrum hætti og að það næði bæði til djúpköfunar og yfirborðsköfunar, eða snorkls eins og það heitir. Nefndin áréttar mikilvægi þess að ný lög um köfun taki einmitt til annars konar köfunar en þar sem kafari notar loftgjafa og öndunargrímu, þ.e. til þessa fyrrgreinda snorkls og einnig fríköfunar, en það er djúpköfun án öndunargrímu og loftgjafa. Nefndin leggur því til að komið verði á móts við þessi sjónarmið með breytingu á skilgreiningum á köfun og að bætt verði við skilgreiningu á köfunarbúnaði.

Bent var á nauðsyn þess að setja skilyrði sem áhugakafarar yrðu að uppfylla til þess að mega stunda köfun og tryggja að leiðbeinendur og aðrir þeir aðilar sem sæju um kennslu gengju úr skugga um að viðkomandi áhugamaður uppfyllti þau. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til að bætt verði við skilyrðum fyrir því að mega stunda áhugaköfun.

Í umsögnum um málið var gagnrýnt að allt eftirlit með köfun væri á hendi Samgöngustofu. Bent var á að ef til vill væru aðrir aðilar færari um að framkvæma vettvangsrannsóknir en Samgöngustofa. Nefndin tekur undir þau sjónarmið líka en telur engu síður mikilvægt að skýrt sé að Samgöngustofa komi nálægt eftirliti, en leggur líka til ákveðnar breytingartillögur.

Nefndinni bárust athugasemdir frá rannsóknarnefnd samgönguslysa um orðalag í 2. mgr. 15. gr. frumvarpsins þar sem er tiltekið að niðurstöður rannsóknar lögreglu skuli sendar rannsóknarnefnd samgönguslysa til umfjöllunar og álitsgjafar. Að mati rannsóknarnefndarinnar sjálfrar væri mjög erfitt fyrir hana að veita álit sitt á einhverju sem hún hefði ekki rannsakað sjálf. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur til að tekinn verði af allur vafi um að rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaki köfunarslys. Slíkar rannsóknir eru óháðar rannsóknum lögreglu og byggjast á sérlögum. Það er ákveðin breytingartillaga hér í þeim efnum.

Reglugerðarheimild í 16. gr. er víðtæk og hvetur nefndin til þess að skýr ákvæði um eftirlit með köfunarbúnaði, starfsháttum ferðaþjónustufyrirtækja sem selja aðgang að köfun og umhverfisálagi á köfunarstöðum komi þar fram. Þá er átt við að þar komi ólíkir aðilar að.

Nefndin telur þörf á að aðilar sem hyggjast kafa utan skilgreindra þjónustusvæða, samanber Silfru og Davíðsgjá á Þingvöllum, tilkynni um fyrirhugaða köfun og hafi til hennar leyfi þar sem við á. Það á við svæði í einkaeigu, þjóðgarða og friðlýst svæði og staði í óbyggðum, fjarri alfaraleið. Hér er sem sagt verið að minna á að stundum eru menn að kafa á stöðum eins og Langasjó eða Öskjuvatni og öðrum slíkum stöðum. Um bæra aðila til þess að taka við tilkynningum verði kveðið á í reglugerð, svo sem Umhverfisstofnun, Samgöngustofa, Landsbjörg og lögreglu í umdæminu. Fordæmi tilkynninga af svipuðu tagi eru kunn, svo sem tilkynningar til Landsbjargar um ferðir á víðfeðma jökla eða há fjöll og langar göngu- eða skíðaferðir um óbyggðir.

Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Vilhjálmur Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita auk mín, Bergþór Ólason, formaður nefndarinnar, Hanna Katrín Friðriksson, Helga Vala Helgadóttir, Jón Gunnarsson, Karl Gauti Hjaltason, Líneik Anna Sævarsdóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir.