148. löggjafarþing — 75. fundur,  11. júní 2018.

skattleysi uppbóta á lífeyri.

649. mál
[17:22]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í dag upplifi ég sælustund á Alþingi Íslendinga. Flokkur fólksins situr sitt fyrsta löggjafarþing og jafnvel þó að við getum sagt að þetta sé ekki risavaxið mál sem nú fær að koma í gegnum þingið með góðra vina og góðra manna hjálp er þetta sannarlega áfangasigur, ekki bara fyrir Flokk fólksins heldur fyrir allt þingið vegna þess að sú kona sem hér stendur hefur oft sagt: Tökum saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum. Það er nákvæmlega það sem við erum að verða vitni að í dag. Það er nákvæmlega svona sem góðir hlutir gerast, þeir gerast hægt en þeir gerast örugglega ef við stöndum saman, öll sem eitt, og vinnum að þeim af heilindum og kærleika. Það er allt sem þarf, góður vilji til verksins, og í þessu tilviki hér var svo sannarlega vilji og það var komin þekking hjá öllum um að hér væri um raunverulegt réttlætismál að ræða.

Það eru mörg fleiri réttlætismál sem við eigum eftir að vinna í sameiningu, trúi ég, sem við höfum kannski ekki enn öll nákvæmlega vitneskju um, eins og hv. þm. Smári McCarthy benti á áðan. Ég þakka honum fyrir falleg og hlý orð, sem og öðrum sem hér hafa talað. Það er þannig að æfingin skapar meistarann, svo lengi lærir sem lifir og það á við um okkur hér sem erum að stíga okkar fyrsta skref sem löggjafi, taka þátt í löggjafarsamkundunni okkar, að við lærum skref fyrir skref.

Ég segi aftur: Góðir hlutir gerast hægt. Og fyrir fólkið okkar, þó að jólin séu ekki alveg á næsta leiti, megum við búast við því 1. nóvember nk. í síðasta lagi að búið verði að mæla fyrir þessu frumvarpi, það verði orðið að lögum fyrir jól og að sá hópur sem um er rætt fái þá svo sannarlega jólagjöf, ekki bara frá Flokki fólksins heldur frá öllu Alþingi Íslendinga. Ég segi bara: Þakka ykkur fyrir. Þetta er fallegur dagur og hann gerir margt gott fyrir mjög marga.