149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

málefni lögreglunnar.

[14:11]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að bera upp enn og aftur, svo að ég vitni í hans eigin orð, málefni lögreglunnar við sérstaka umræðu. Það er mér ánægja að fá að ræða málefni lögreglunnar reglulega og þau eiga auðvitað að vera fastur liður á dagskrá, eins og sagt er.

Hv. þingmaður gerir að sérstöku umræðuefni hina sýnilegu löggæslu. Ég held að ég hafi farið ágætlega yfir það við síðustu sérstöku umræðu við hv. þingmann hvernig hlutirnir hafa þróast í löggæslunni, m.a. með þeim hætti að löggæsla er orðin miklu umfangsmeiri og flóknari en svo að hún snúist aðeins um lögreglumenn á fæti, ef má kalla það svo, hina sýnilegu úti á götum þéttbýlisins og jafnvel dreifbýlis og uppi á hálendi, og ekki hægt að einblína eingöngu á fjölda þeirra. Ég nefndi einmitt þá að glæpir hafa nánast færst frá raunheimum yfir í netheima. Það er einn angi af löggæslu sem við höfum þurft að glíma við og bregðast við með sérhæfingu lögregluliða og einnig með því að fá til liðs við okkur sérfræðinga á ýmsu öðru sviði en beint löggæslusviði. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að sýnileg löggæsla skiptir mjög miklu máli, enda höfum við verið að fjölga sýnilegum lögreglumönnum verulega undanfarin ár.

Mig langar að nefna þetta í tengslum við löggæsluáætlun sem liggur hjá mér á borðum til yfirlestrar og mun ég leggja fram á næstu dögum löggæsluáætlun sem hefur verið í vinnslu í ráðuneytinu um nokkurt skeið. Þar er sérstaklega lögð áhersla á greiningu á mannaflaþörf og við komumst að því, m.a. í samstarfi við lögreglustjóra úti um allt land sem hafa unnið með okkur að þeirri áætlun, að ekki er nóg að skoða þann fjölda lögreglumanna sem hefur verið fram til þessa. Löggæsluþörfin hefur breyst og hugmyndafræði varðandi mönnun lögregluembætta mun í áætluninni byggjast í grunninn á markmiðum er varða í fyrsta lagi neyðarútkallsþjónustu, í öðru lagi afbrotamannavarnir og í þriðja lagi rannsóknir.

Svo að ég veiti þingheimi smá innsýn inn í þá löggæsluáætlun, sem hefur þó ekki verið lögð fram, er í henni lögð áhersla á að 67% af mannafla lögreglunnar sé tilkippilegur vegna neyðarútkallsþjónustu, 10% af mannaflanum vegna afbrotavarna og 23% vegna rannsókna. Þetta á við á hverjum tíma.

Ég vil nefna líka að á undanförnum árum hefur þeim starfsmönnum lögreglunnar fjölgað sem ekki eru lögreglumenntaðir, t.d. sérfræðingum á ýmsum sviðum. Þeir koma ekki fram í tölunni sem hv. þingmaður nefnir, en hann vísar til 712 lögreglumanna á síðasta ári. Ég bendi á að orðið hefur lítils háttar fjölgun þó að segja megi að hún hafi staðið í stað á höfuðborgarsvæðinu, af því að hv. þingmaður vék sérstaklega að því svæði. Fjöldi menntaðra lögreglumanna hefur staðið í stað en hins vegar hefur fjölgað verulega á meðal afleysingamanna. Það á kannski rætur að rekja til breytinga á menntun lögreglumanna og nýliðunar í störfum, sem við erum nú að fara yfir hvernig hefur reynst. Við höfum hins vegar lagt mikla áherslu á að tryggja nýliðun með því t.d. að fjölga plássum í náminu við Háskóla Íslands, sem er diplómanám eins og menn þekkja, og ýmsum öðrum slíkum atriðum.

Þetta horfir allt því til bóta og eins og ég hef margítrekað og ætla að gera enn og aftur hafa fjárframlög til málefnasviðs löggæslunnar aukist verulega. Á þessu ári er hækkun um 1,5 milljarða frá því í fyrra sem rennur til lögreglunnar og ekki síst til fjölgunar sýnilegra löggæslu með vísan til fjölgunar ferðamanna á ýmsum svæðum. Þó fer einnig stór hluti þeirra fjármuna í að efla aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Það er svo sannarlega ekki sýnileg löggæsla en hins vegar afar brýnt að hún verði efld.