149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

málefni lögreglunnar.

[14:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja hér enn á ný umræðu um stöðu lögreglunnar í landinu enda tel ég þá umræðu þarfa, hvenær sem hún fer fram. Við verðum að tryggja að löggæslan hér sé með viðunandi móti.

Fram kom í máli hæstv. ráðherra að það stæði nú allt til bóta, að lögreglumönnum hefði fjölgað og að löggæsla hefði batnað umtalsvert. En eftir samtöl mín undanfarna daga við þá sem starfa úti á akrinum kemur í ljós að hin almenna löggæsla er í rauninni enn á sama stað og hún var hér fyrir nokkrum árum þegar kvartað var hvað mest undan álagi á hinn almenna lögreglumann og því hversu illa gengi að sinna lögbundnu hlutverki lögreglunnar.

Ríkisstjórnin hefur vissulega farið í ákveðnar aðgerðir þegar kemur að sérverkefnum, að efla kynferðisbrotadeild lögreglunnar, sem var heldur betur búið að kalla eftir í mörg ár. Er það mjög gott. Rannsóknir á þeim málum ættu nú að fara að komast á eitthvert skrið þannig að ekki vari árum saman bið eftir úrlausn í þeim málum.

En það breytir ekki því að oft og tíðum eru t.d. á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land, eftir því sem ég heyrði, vaktir þannig mannaðar að það er einn fagmenntaður lögreglumaður á vakt og svo fjöldi svokallaðra H-manna, sem eru þá ekki menntaðir lögreglumenn. Þessir einstaklingar eiga að sinna útköllum. Fyrir utan það eru vaktirnar svo undirmannaðar að það eru eingöngu allra brýnustu verkefni sem hægt er að sinna á nauðsynlegum tíma.

Ég held að ef við ætlum að sinna þessu eins og öðru nægilega þurfum við bæði að fjölga verulega (Forseti hringir.) menntuðum lögreglumönnum sem og að auka verulega fjármagn í almenna löggæslu.