149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

málefni lögreglunnar.

[14:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er mikilvægt að ræða málefni lögreglunnar og áhugaverðir þeir áherslupunktar sem hér hafa verið lagðir til grundvallar sem snúa m.a. að sýnileika í löggæslunni og mönnun lögreglunnar.

Ég held að sýnileiki lögreglu sé mjög mikilvægur, sérstaklega á sumum sviðum. Mig langar einkum að nefna það sem snýr að umferðaröryggi. Ég held að það hafi hreinlega áhrif á hegðun okkar að hafa lögregluna sýnilega í umferðinni.

En svo horfir kannski annað við gagnvart öðrum þáttum löggæslustarfanna varðandi þá ímynd sem sýnileikinn skapar þar. Sem dæmi langar mig að nefna það sem var svolítið í umræðunni hér sumarið 2017 og við ræddum talsvert mikið í samfélaginu, þ.e. sýnileika vopnaðrar lögreglu. Ég held að það sé ekki til þess fallið að borgararnir finni til öryggis heldur geti það jafnvel kallað fram ótta. Það er atriði sem við þurfum að hafa í huga.

Mönnun lögreglunnar skiptir líka miklu máli. Hæstv. dómsmálaráðherra fór ágætlega yfir það hvernig starf lögreglunnar hefur verið að breytast. Í umræðu hér fyrir rétt rúmu ári síðan fjallaði ég um kyn og hvernig það skiptir máli þegar kemur að löggæslumálunum. Það skiptir kannski ekki síst máli þegar kemur að kynferðisbrotamálunum þar sem konur eru yfirleitt þolendur en karlar frekar gerendur. Þess vegna þarf lögreglan að vera meðvituð um það.

En ég held líka að það sé mikilvægt að hafa lögreglumenn sem geta og hafa þekkingu á því að takast á við fjölbreytt samfélag, því að við erum (Forseti hringir.) orðin mjög fjölbreytt samfélag, að lögreglan hafi fjölbreyttan bakgrunn og geti tekist á við fjölbreyttar þarfir okkar sem í landinu búum.