149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

málefni lögreglunnar.

[14:31]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda, Þorsteini Sæmundssyni, fyrir að hefja máls á málefnum lögreglunnar og tel að umræða um hana verði seint of mikil. Hér er rætt um sýnilega löggæslu sem er löggæsla sem er til þess fallin að auka öryggistilfinningu borgaranna og hefur að auki víðtæk fyrirbyggjandi áhrif.

Lögreglan hefur lengi kallað eftir auknum mannskap og þrátt fyrir að í tíð núverandi hæstv. ráðherra hafi ástandið batnað verður að taka mið af því að fjöldi lögreglumanna hefur um langt árabil, þar til nú, verið á niðurleið í bæði fjölda en ekki síður ef miðað er við aukin verkefni lögreglu, íbúafjölgun og ekki síst fjölda ferðamanna.

Ég vil í upphafi máls míns nefna sérstaklega varhugaverða stöðu lögreglunnar utan þéttbýlis þar sem lögreglumenn þurfa oft og tíðum að vera einir, fara einir í útköll og vita ekkert hvað bíður þeirra. Ég tel að þar þurfi að gera betur.

Lögreglan þarf að vera nægilega mönnuð til að sinna frumkvæðisvinnu, en á því hefur verið skortur á umliðnum árum vegna þess að lögreglan hefur verið svo hlaðin verkefnum að mestallur tími hins almenna lögreglumanns fer í að sinna útköllum.

Þá vil ég að ræða um forvarnastarf lögreglu sem ég tel að þurfi að leggja miklu meiri áherslu á. Sá þáttur í starfi lögreglunnar hefur því miður verið vanræktur á síðustu árum og jafnvel lengur. Það er mikilvægt að lögreglan hafi mannskap til að vera í tengslum við nærumhverfið, ungmenni í hverfum og bæjum, þeir viti hvar skórinn kreppir og hvaða hættur steðja að. Mikilvægt er að geta gripið inn í nógu snemma, t.d. þegar unglingarnir eru að feta sín fyrstu skref í neyslu ólöglegra vímuefna, og skipta sköpum góð tengsl lögreglu á þeim tíma. Þá er ekki að verra að lögreglan hafi áður aflað sér jákvæðs viðhorfs meðal barna og ungmenna á viðkomandi svæði.

Herra forseti. Við verðum að leggjast á eitt með hæstv. ráðherra að efla lögregluna og búa henni viðunandi starfsskilyrði.