149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

málefni lögreglunnar.

[14:44]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Mig langar til að vekja athygli á því að í bráðabirgðatölum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem eru bráðabirgðatölur fyrir árið 2018, kemur fram að það hefur orðið umtalsverð fjölgun kynferðisbrotamála sem eru til meðferðar hjá lögreglunni. Voru þau 386 á síðasta ári, 300 árið þar á undan og 277 árið 2016. Í þessum málaflokki er því æ meira undir. Nauðgunarmálum hefur fjölgað úr 124 árið 2016 upp í 187 á síðasta ári.

Þetta eru skuggalegar tölur og það er mjög brýnt að lögreglan geti sinnt sínum þætti málsins, þ.e. rannsókninni, með öflugum hætti. Ég veit að meira fé og mannafli hefur verið lagt í það en það þarf að gera enn betur til að ná málsmeðferðarhraðanum. Það gildir þá um allt kerfið, ekki bara lögregluna, til að hægt sé að hraða málsmeðferðinni. Það er ekki síður mikilvægt að efla skilning og vitneskju allra aðila í réttarvörslukerfinu um þessi alvarlegu brot.

Ég leyfi mér að minna á þingsályktunartillögu sem undirritaður hefur lagt fram sem beinist að því að leggja fé inn í réttarvörslukerfið til þess að fræða og geta þá undirbúið lögregluna (Forseti hringir.) betur undir rannsóknir og forvarnastarf sem lýtur að kynjafræðum, kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum því að það er mjög nauðsynlegt að lögreglan, eins og aðrir, skilji og þekki þessi atriði mjög vel.