149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

Schengen-samstarfið.

566. mál
[14:55]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir það tækifæri að fá að ræða í þingsal skýrslu sem ég gaf út og hef birt opinberlega um Schengen-samstarfið. Skýrslu þessa lagði ég fram á Alþingi til þóknanlegrar meðferðar, eins og það heitir. Ég er ánægð með að þingmenn hafa verið jákvæðir og hafa brugðist við því með þeim hætti sem hér er raunin, og að fá að ræða skýrsluna með þeim hætti sem hér hefur verið kynnt.

Skýrsluna sjálfa má finna á heimasíðu Alþingis og einnig á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins.

Í skýrslunni er fjallað almennt um Schengen-samstarfið, aðdraganda þess og þróun í grófum dráttum og þau verkefni sem rædd eru á reglulegum fundum dómsmála- og innanríkisráðherra Evrópusambandsins sem við dómsmálaráðherrar Schengen-samstarfsríkjanna sækjum. Skýrslan skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta lagi er hluti er lýtur að landamærum, lögreglusamvinnu og öryggismálum, í öðru lagi útlendingamál og í þriðja lagi vegabréfsáritunarmál.

Dagleg framkvæmd Schengen-samstarfsins á Íslandi er í höndum dómsmálaráðuneytisins. Við höfum fulltrúa í sendiráði Íslands í Brussel sem sinnt hefur hagsmunagæslu fyrir okkur í nokkur ár. Þá vil ég líka nefna embætti ríkislögreglustjóra sem hefur hlutverki að gegna, lögregluumdæmi landsins og eins Útlendingastofnun. Utanríkisráðuneytið kemur að einhverju leyti inn í Schengen-málefnin, og Landhelgisgæslan, Persónuvernd og Þjóðskrá koma að ákveðnum afmörkuðum verkefnum sem tengd eru Schengen.

Að mínu mati skiptir miklu máli að halda vel utan um alla þessa þætti samstarfs okkar við Schengen-ríkin í skýrslunni. Það getur verið til glöggvunar í þeim tilgangi að meta ávinning af þátttöku Íslands í Schengen og eins í öllu alþjóðasamstarfi.

Utanríkisráðherra reifar hér árlega skýrslu sína um alþjóðasamstarf almennt en Schengen-málin hafa svolítið legið utan við þá skýrslu vegna þess hvar málefnin hvíla eins og ég hef lýst. En ég hefði ekki meiri ánægju af neinu en að fá að ræða þetta hérna, a.m.k. árlega.

Ísland hefur greiðan aðgang að hagsmunagæslu á vettvangi samstarfsins með þátttöku í mótun nýrra Schengen-gerða. Ég vil nefna að það er t.d. ólíkt því sem við þekkjum af samstarfi okkar á vettvangi EES þar sem við höfum ekki tækifæri til að móta EES-gerðir frá upphafi. En það höfum við í Schengen-samstarfinu.

Ég nefni líka að það felast í því áskoranir fyrir lítið land eins og Ísland að sinna hagsmunagæslu eins og við myndum best vilja hafa hana, en það á við í öllu alþjóðasamstarfi Íslands. Fámenni okkar lands býður einfaldlega ekki upp á að fylgjast með öllum þráðum á hverjum tíma. Við höfum átt mjög gott samstarf við önnur Schengen-ríki og Norðurlöndin líka, einnig þau sem eru innan Evrópusambandsins.

Ísland hefur tekið þátt í Schengen-samstarfinu frá árinu 2001, eins og menn þekkja. Þrátt fyrir verulegt aukið umfang þessa samstarfs á undanförnum árum eru markmiðin enn þá óbreytt. Þau eru einkum tvíþætt. Það er annars vegar afnám persónubundins eftirlits og hins vegar tilteknar mótvægisaðgerðir til að mæta þessu afnámi persónubundins eftirlits. Það eru mótvægisaðgerðir sem felast í samræmdum reglum um landamæraeftirlit og landamæravörslu á ytri landamærum og lögreglusamvinnu almennt milli Schengen-ríkjanna.

Í umræðu um þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu er gjarnan einblínt á þann þátt sem lýtur að afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum, enda þekkjum við hann öll þegar við ferðumst. Það felst í því að engin vegabréfaskoðun er þegar við ferðumst til landa Evrópusambandsins eða Schengen-ríkjanna.

En hinn þátturinn er ekki síður mikilvægur. Þar er um að ræða samræmdar reglur um eftirlit á ytri landamærum og mikla samvinnu lögregluliða ríkjanna með öryggi borgara Schengen-ríkjanna að leiðarljósi.

Langflestir sem ferðast á milli landa gera það í lögmætum tilgangi. Það eru ýmsar ferðir, hvort sem er til skemmtunar eða atvinnu. Ég hef nefnt að það sé algerlega ástæðulaust og tilgangslaust að amast við þessum ferðum, enda eðlilegar. En ég hef hins vegar lagt á það áherslu að það er hverju fullvalda ríki mjög mikilvægt að hafa einhverja yfirsýn yfir þann straum erlendra borgara sem fer um landamæri ríkisins. Það eru nefnilega ekki allir í lögmætri dvöl. Og ekkert ríki á Vesturlöndum er í stakk búið til að taka á móti öllum þeim sem þangað vilja flytja frá öllum heimshornum og/eða taka á móti mögulegri glæpastarfsemi sem kann að fylgja ólögmætri dvöl.

Ég legg áherslu á að frjáls för manna yfir landamæri er markmið í sjálfu sér og það eru mikilsverð réttindi að geta farið á milli ríkja án þess að þurfa að sæta þessu endalausa persónubundna eftirliti sem við þekkjum við landamæravörslu almennt.

Þessi niðurfelling á eftirliti á innri landamærum hefur kallað á öryggisráðstafanir. Þar skiptir lögreglusamvinna sköpum. Mikilvægur hluti hennar felst í sameiginlegu upplýsingakerfi sem kallast SIS, eða á ensku „Schengen Information System“. Þar eru tilheyrandi heimildir löggæsluyfirvalda til að miðla með skilvirkum hætti upplýsingum á milli samstarfsaðila. Þá er einnig samvinna milli ríkjanna um réttaraðstoð í sakamálum mjög mikilvæg, m.a. með það að leiðarljósi að einstaklingur verði ekki saksóttir eða refsað tvívegis fyrir sama brot á Schengen-svæðinu.

Þá hafa samstarfsríki skuldbundið sig til þess að fylgja samræmdri stefnu við útgáfu vegabréfsáritana og er ekki ólíklegt að án þessa samstarfs um vegabréfsáritanir og áritunarfrelsi væri ferðaþjónustan á Íslandi nokkuð fátæklegri en hún er í dag.

Ég vil þó nefna að Schengen-samstarfið kemur ekki í veg fyrir að einstakt ríki geti tekið upp landamæraeftirlit tímabundið og af málefnalegum ástæðum. Þannig er það t.d. í dag að níu Schengen-ríki hafa óskað eftir upptöku eftirlits og tekið upp tímabundið eftirlit á innri landamærum. Eru sjö Schengen-ríki með slíkt eftirlit um þessar mundir, Danmörk, Svíþjóð, Noregur og Pólland, Austurríki, Þýskaland og Frakkland. Það eru ríki sem í dag nýta sér þessar heimildir innan Schengen til tímabundins landamæraeftirlits.

Á Íslandi fer greiningardeild ríkislögreglustjóra með áhættumat á landamærum. Ég hef sérstaklega óskað eftir því að það sé skoðað hér á landi þegar nágrannaríki okkar taka upp tímabundið landamæraeftirlit, hvort ástæða sé fyrir okkur til að gera slíkt hið sama. Forsenda þess er þá að viðbúnaðarstig hér sé hækkað á grundvelli tiltekins áhættumat sem fram fer hjá lögreglustjóra. Ekki hefur þótt ástæða til að gera það hingað til. En það er hins vegar full ástæða til þess að hafa það í huga og fylgjast með þróun þessara mála, sérstaklega á Norðurlöndunum.

Ég vil að gefnu tilefni taka sérstaklega fram að með þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu tekur Ísland ekki þátt í heildarstefnu Evrópusambandsins í málefnum útlendinga eða hælisleitenda. Ísland er ekki skuldbundið að neinu leyti í þeim efnum. Hins vegar tekur Ísland þátt í Dyflinnarsamstarfinu sem lýtur að afmörkuðum málum er varða útlendingamál, þar á meðal brottvísunum og endurkomubanni útlendinga sem hingað koma í ólögmæta dvöl. Ég fæ ekki séð hvernig Ísland hefði t.d. getað brugðist við fordæmalausum straumi hælisleitenda undanfarin ár án þessa samstarfs sem er hluti af Schengen-samstarfinu.

Ég vil líka nefna það sérstaklega að þess misskilnings gætir stundum í umræðu um Schengen að afstýra hefði mátt fjölgun hælisleitenda hér á landi ef Ísland væri utan Schengen-samstarfsins. Það er auðvitað ekki þannig. Menn koma og óska eftir hæli í löndum alveg óháð því og óháð í hvaða bandalögum ríkin eru. Schengen-ríkin eru alls ekki einu áfangastaðir hælisleitenda, eins og Bretland er ágætisdæmi um.

Dyflinnarsamstarfið tryggir hins vegar að þeir hælisleitendur sem hingað leita en eru þegar með umsókn um alþjóðlega vernd til afgreiðslu hjá öðru ríki innan Schengen, fái þann rétt og eigi kröfu á að það ríki afgreiði og ljúki málinu. Ef þetta samstarf væri ekki til staðar er ekki víst að ríki myndu almennt hirða um að afgreiða mál þeirra sem sæktu um alþjóðlega vernd. Dyflinnarsamstarfið er því ekki síður til hagsbóta og í þágu hagsmuna þeirra sem óska eftir hæli.

Fram undan eru nokkuð mikilvæg verkefni á sviði landamæra og lögreglusamvinnu sem almenningur verður alveg örugglega mjög var við. Það er svokallaða Entry/Exit-kerfi sem samkomulag náðist um á síðari hluta ársins 2017, og verður tekið upp hér. Því er til að mynda ætlað að auka gæði landamæraeftirlits og sjálfvirkni við mælingu dvalar útlendinga á Schengen-svæðinu. Það er kerfi sem styrkir löggæsluyfirvöld í baráttunni gegn hryðjuverkum og glæpum sem ná þvert á landamæri.

Ég vil líka nefna að árið 2022 er fyrirhugað að taka í notkun ETIAS-kerfi, sem kallast á ensku European Travel Information and Authorisation System. Það kerfi er í líkingu við það kerfi sem Bandaríkin nota við forskráningu ferðamanna til landsins. ETIAS er ætlað að greiða fyrir landamæraeftirliti og draga úr líkum á því að ferðamaður sæti frávísun á landamærum. Kerfið tekur til borgara ríkja sem njóta áritunarfrelsis inn á Schengen-svæðið og er ætlað að auka öryggi svæðisins og ná betri stjórn á ytri landamærum.

Þá stendur einnig til að gera umfangsmiklar breytingar á sameiginlega Schengen-upplýsingakerfinu, sem ég nefndi í upphafi ræðu minnar, og varðar notkun þess við lögreglu- og dómsmálasamvinnu í sakamálum og landamæraeftirlit og brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl. Markmiðið með þeim breytingum er að auka gæði upplýsinga, m.a. með skýrari reglusetningu.

Ég vil nefna þessu tengt að Ísland gætti vel að hagsmunum sínum við gerð þessarar breytingartillögu innan Schengen og lagðist t.d. gegn því að skylt yrði að halda svokölluðu landsafriti af SIS-gagnakerfinu. Það höfum við verið að gera. Það er afskaplega kostnaðarsamt og dýrt og þjónar kannski ekki miklum tilgangi þegar ekki öll ríkin gera það, þrátt fyrir skyldu til að gera það, vegna þess að sum ríki hafa ekki haft bolmagn til þess. Við lögðumst gegn þessu ásamt Finnlandi, Noregi, Danmörku og Slóveníu. Eftir miklar viðræður við formennskuríki ráðherraráðsins og framkvæmdastjórn ESB var niðurstaðan sú að ekki væri skylt að halda landsafriti fyrir þessi Schengen-ríki. Það er reifað ágætlega í skýrslunni.

Ég vil nefna það sem dæmi um það hvernig Ísland getur haft áhrif við mótun nýrra Schengen-gerða. Við gerðum það með þátttöku okkar íslensku sérfræðinga, sendiherra og ráðherra í nefndum dómsmálaráðherrans, þeirrar sem hér stendur, í nefndum ráðherraráðs Evrópusambandsins.

Skýrslan ber með sér að fjölmörg umfangsmikil verkefni eru í vinnslu á vettvangi Schengen sem mikilvægt er að Ísland fylgist vel með. Helsti ávinningur samstarfsins er og verður frjáls (Forseti hringir.) för milli landa án landamæraeftirlits og Dyflinnarsamstarfið og stuðningur Landamærastofnunar Evrópu, Frontex, við endursendingaraðgerðir. Einnig eru ýmsar áskoranir reifaðar í skýrslunni en ég hlakka til að hlusta á ræður hv. þingmanna og eiga umræður um þetta mál í dag.