149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

637. mál
[17:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra yfirferðina. Þetta er athyglisvert frumvarp og lýtur að því að lækka álögur á bankana, sem er sérstakt áhugamál hjá þessari ríkisstjórn. Það sem ég vildi koma inn á við hæstv. ráðherra er að það er áhugavert að verið sé að gera þessa breytingu akkúrat núna. Þar sem frumvarpið tilgreinir sérstaklega og kom fram í máli hæstv. ráðherra, að í farvatninu sé heildarendurskoðun á kerfinu og innleiðing á nýju regluverki, spyr maður sig: Hvers vegna er verið að gera þetta núna? Það virðist eins og liggi eitthvað á þessu. Lögin eiga að taka gildi 1. júní. Er þetta komið til vegna beiðni frá bönkunum sérstaklega? Var ekki hægt að bíða eftir því að endurskoðað regluverk yrði bara innleitt og þessar breytingar gerðar?

Í öðru lagi langar mig að koma aðeins inn á að mér finnst áhugavert að ekkert sé fjallað um það í frumvarpinu þegar ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingu á sínum tíma um ábyrgð á bankainnstæðum landsmanna eftir hrunið. Ekkert er fjallað um hvað sú ábyrgð kostaði og hvort tryggingarsjóðurinn hefði átt að greiða til ríkisins fyrir þá ábyrgð sem tryggði þennan rekstur. Í reynd ætti ríkið að taka hluta af þessum sjóði upp í svokallaða ábyrgðargjald. Ég myndi vilja fá skoðun ráðherrans á því. Mér finnst vanta aðeins í hugleiðingar um það í þetta frumvarp.