149. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2019.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

637. mál
[17:26]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna. Ég tel að hér sé að mörgu leyti ágætismál á ferðinni en langar að inna hæstv. ráðherra eftir því, m.a. í ljósi þeirra raka sem hann færði sjálfur fram í framsögu um að sjóðurinn ætti í raun orðið meira við minni fjármálastofnanirnar en kannski stóru kerfislega mikilvægu stofnanirnar, hvort það hefðu verið einhverjar vangaveltur í ráðuneytinu um að beita sér fyrir meiri lækkun á iðgjaldinu að þessu sinni en kemur hér fram. Þarna er um að ræða 28–29% lækkun sem skilar sér í u.þ.b. 1 milljarði, ef ég reikna ekki mjög vitlaust, í lækkuðum gjöldum. Það eru heilmiklir peningar.

Hin vangaveltan er sú hvort það sé einhver flötur á því eða hvort ráðherrann sjái það fyrir sér að hægt sé að tryggja það eða a.m.k. stuðla að því að þessi ávinningur skili sér raunverulega til neytenda, til viðskiptamanna bankanna, en verði ekki kannski fyrst og fremst eigendum þessara stofnana til sérstakra hagsbóta.