151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Það er ekki tíðindalítið þetta árið, Covid-19 veiran og eldgos. Það er ekki oft sem við upplifum svona tíma. Framvinda þessa eldgoss er óljós, það þarf ekki að fjölyrða um það. Það getur staðið í vikur, mánuði, jafnvel ár. Það er mikill áhugi á því innan og utan lands og það beinir sjónum okkar að ferðaþjónustunni. Hún verður í brennidepli eftir einhverjar vikur eða mánuði og hún á að vera sem sjálfbærust í okkar augum. Álag á umhverfið þarna upp frá er orðið verulegt og álag á samfélagið, t.d. í Grindavík, er orðið mikið, á björgunarsveitir og lögreglu, á eigendur lands og íbúa á svæðinu. Það beinir augum okkar að sjálfbærninni og þolmörkunum sem henni fylgja. Ég tel að við þurfum að sýna frumkvæði og skilgreina, að breyttu breytanda á hverjum tíma, og virða þolmörk á þessu svæði, þolmörk ferðaþjónustunnar. Lykillinn að því er samstarf á vegum almannavarna í gegnum tilheyrandi ráðuneyti, vísindamenn, lögregluna, björgunarsveitir, sjúkraflutningamenn, ferðaþjónustuna, bæði fyrirtæki og samtök hennar, og sveitarstjórnir. Markmiðið með slíku samstarfi — nú er ég að horfa dálítið langt fram í tímann — er einmitt að greið og örugg og upplýsandi skoðun merkilegra atburða, sem þarna eru í náttúrunni, verði með sem sjálfbærustum hætti. Ég tel að það þurfi að kalla saman samstarfshóp, mér dettur í hug t.d. bara á vegum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, fyrr en síðar og fara að hyggja að því hvernig við tökumst á við að hafa þá þjónustu sem þarna þarf að veita á sem sjálfbærustu nótum. Þetta er mikilvægt verkefni ef gosið lengist eitthvað umfram nokkra daga eða vikur.