151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Kjarninn fjallar í dag um frumvarp sem formenn og fulltrúar hér á Alþingi hafa lagt fram um fjármál stjórnmálaflokka. Er þar fjallað sérstaklega um nýja grein sem fjallar um bann við nafnlausum áróðri. Ég vil fyrst segja að ég er meðflutningsmaður á þessu máli með þeim fyrirvara að það fái dyggilega skoðun í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvað varðar sérstaklega þetta ákvæði þar sem það snertir óhjákvæmilega á tjáningarfrelsi, og ekki einungis að það sé í samræmi við stjórnarskrá heldur líka að það uppfylli þau lýðræðislegu gildi sem tjáningarfrelsinu er ætlað að næra.

Þó vil ég segja að ég sé grundvallarmun á því annars vegar að banna einhverjum að tjá sig og hins vegar að gera stjórnmálasamtökum eða aðilum almennt skylt að merkja við að viðkomandi beri ábyrgð á tilheyrandi styrktu efni. En aftur ítreka ég nauðsyn þess að þetta sé skoðað í kjölinn og ég áskil mér fullan rétt til að skipta um skoðun á þessu máli seinna meir, enda er þetta ákvæði sem við í Pírötum höfum haft áhyggjur af og höfum haft áhrif á. Þakkir til þeirra sem tóku mark á því.

Þó vil ég einnig nefna það sem er kannski jafnvel enn þá mikilvægara en þetta frumvarp, sem er hlutverk borgarans, lesandans, áheyrandans í því að geta lesið, séð og heyrt heiminn sem við búum í án þess að vera samstundis heilaþveginn af honum. Almenningur er ekki börn yfirvalda. Þetta er fullorðið fólk upp til hópa og við eigum að gera þá kröfu til annars fullorðins fólks að það hafi sjálfstæða hugsun og geti tekið upplýstar ákvarðanir þótt það verði fyrir einhverri vitleysu á internetinu. Því miður er íslenskt samfélag ekki vant því að hugsa þannig um fólk heldur er meira eða minna hugsað um almenning sem samansafn af börnum sem yfirvöld þurfi einhvern veginn að ala upp. Ég vildi bara koma hingað upp í ljósi þessarar umfjöllunar Kjarnans og framlagningu þessa frumvarps og minna á að almenningur er ekki samansafn af börnum heldur fullorðnu fólki.