151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Félag kvenna í atvinnulífinu var stofnað 1999, það er félagsskapur 1.200 kvenna og hefur vaxið og dafnað og gott tengslanet myndast í öllum atvinnugreinum. Gott dæmi um forystukonu innan FKA er Hildur Magnúsdóttur í Skagafirði en fyrirtæki hennar framleiðir fæðubótaefni, m.a. úr ýmsum íslenskum hráefnum, og hefur nýverið náð að koma vörum sínum í dreifingu í þekktum verslunum um allan heim.

FKA hefur staðið fyrir fjölda verkefna til að styrkja konur til forystu á vinnumarkaði. Þar má nefna verkefnið að fjölga konum í stjórnum frá 2009 og fjölmiðlaverkefnið sem var hrint af stað 2013 sem stuðlar að auknum sýnileika kvenna í fjölmiðlum. Eitt stærsta verkefnið sem hefur verið í gangi síðustu misseri er jafnvægisvogin sem unnin er í samstarfi við forsætisráðuneytið og fleiri aðila. Markmið hennar er að fjölga konum í framkvæmdastjórnum og að hlutur kynjanna verði 40/60.

Við þekkjum flest lögin frá 2013 um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja þar sem starfa yfir 50 manns, en því miður eru enn of margar eftirlegukindur meðal fyrirtækja við að framfylgja þessum lögum. Inni á þinginu núna er þingmál sem hefur verið í vinnslu og er hér flutt í þriðja sinn á þremur árum. Það heimilar viðurlög við slíkum lögbrotum. Öll fyrirtæki eiga að sitja við sama borð og framfylgja lögum og ég treysti því að málið fái afgreiðslu á þessu þingi. Flutningsmenn eru úr öllum flokkum utan eins og málið bíður nú 3. umr. og lokaafgreiðslu og ég treysti því að þingheimur afgreiði það mál hratt og vel.