151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Covid-19 og aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að sporna við áhrifum veirunnar hafa augljóslega verið í brennidepli síðasta árið og þá sérstaklega síðustu daga. Sóttvarnaaðgerðir yfir landamærin og innan lands taka reglulegum breytingum sem getur reynst fólki erfitt að fylgjast gaumgæfilega með. Vegna alvarleika málsins og þeirra reglulegu breytinga sem eiga sér stað í sóttvarnaaðgerðum er mikilvægt að upplýsingagjöf ráðamanna til almennings sé ekki misvísandi, sem leiðir auðveldlega til misskilnings meðal landsmanna. Embættismenn, þingmenn og ráðherrar bera allir ábyrgð á því að réttar upplýsingar séu veittar út á við og því er mikilvægt að ráðamenn fari ekki fram úr sér við veitingu upplýsinga um reglur og uppfærslur þeirra.

Við erum öll í þessu saman og eigum öll skilið að fá að vita hvað er í gangi hverju sinni. Þá á ég við bólusetningar, takmarkanir vegna sóttvarna og sóttvarnaaðgerðir á landamærum. Í umræðum um þessi atriði er andrúmsloftið rafmagnað og rangar eða misvísandi upplýsingar um þau draga dilk á eftir sér og skapa ósætti meðal manna. Það er mikilvægt að við höfum það öll í huga að skýr og rétt upplýsingagjöf til almennings sé í forgangi, ekki kosningabarátta, prófkjör eða öflun vinsælda meðal ákveðinna hópa. Við skulum klára leikinn saman, en það er þungt með misvísandi upplýsingum til fólksins. Það er enginn skilningur jafn slæmur og misskilningur.