151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:21]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég verð fyrir miklum vonbrigðum með svar hæstv. heilbrigðisráðherra að því er lýtur að möguleikum okkar á að nýta það bóluefni sem situr ónotað á lager í öðrum löndum. Það klagar auðvitað ekkert upp á sjálfsákvörðunarrétt eða fullveldi annarra ríkja. Að sjálfsögðu skiptum við okkur ekki af því hvað þau ákveða í sínum efnum þegar kemur að bóluefnum. En það að óska eftir því að þau láti af hendi þetta bóluefni, eins og ég segi, þótt ekki væri nema til láns í einhvern tíma, finnast mér sjálfsögð viðbrögð annarra landa við þeim fréttum sem berast af því að bóluefni liggi ónotað, t.d. á Spáni, mörg hundruð þúsund skammtar, og í ýmsum Evrópulöndum líka. Ég held að þessum löndum væri bara þægð í því ef Ísland kæmi og sýndi nú hvernig á að framkvæma þessar bólusetningar sem ganga reglulega vel hérna á Íslandi. Ég brýni hæstv. ráðherra í því að endurskoða afstöðu sína til þessara möguleika.

Einnig væri gott að fá nánari svör (Forseti hringir.) við því með hvaða hætti okkur hefur mögulega staðið til boða, ef það er þannig, í gegnum þau samskipti sem átt hafa sér stað frá framleiðendum utan Evrópusambandsins, hvort menn haldi þeim þráðum ekki vel í sambandi.