151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Jú, ég get fullvissað hv. þingmann um að það er öllum þráðum haldið opnum því að það er mikilvægt. Vegna þess að hv. þingmaður beinir sjónum sínum sérstaklega að efni AstraZeneca, sem er víða á bið, þá er það þannig að við myndum í ljósi stöðunnar og endurmats á því bóluefni ekki nota AstraZeneca fyrir alla aldurshópa. Það er bara vísindaleg niðurstaða. Þannig að þó að við fengjum það að láni myndi það engu breyta fyrir okkar áætlanir. 70 ára og eldri klárast eftir páska og síðan getum við haldið áfram bólusetningu niður í 65 ára með því efni. En loks vil ég fullvissa hv. þingmann um það að við ræðum við alla, við höldum öllum þráðum opnum en spyrjum um leið um gögn.