151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[11:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er það náttúrlega fólk sem vinnur í ferðaþjónustu. Það er líka fólk, það er fólk sem býr á Íslandi og mætir í vinnu eða mætir kannski bara einmitt ekki í vinnu akkúrat núna þannig að það er ekki hægt að aðskilja það. Þetta er hluti af samfélaginu. Ég er ekki sammála hv. þingmanni þegar hún segir að aðgerðir hafi verið að einangra okkur meira og meira. Það var ekkert samfélag opnara heldur en Ísland síðustu tvo mánuði þangað til í gær, í Evrópu. Við vorum í raun og veru í einstakri stöðu. Við gátum farið á tónleika, við gátum farið í leikhús, farið út að borða, hitt vini okkar og búið við og notið 50 manna hámark. Það er eitthvað sem löndin í kringum okkur hafa, sum hver, aldrei getað notið frá því í mars í fyrra.

Varðandi stöðuna sem upp er komin tek ég algjörlega undir það sem hv. þingmaður segir, að það er komin þreyta í samfélagið og löngu, löngu komin þreyta í samfélagið og það er töluverð áskorun fyrir okkur sem stöndum hér að halda stemningu í þessu öllu saman vegna þess að þetta er sannarlega erfitt, en við höfum verið að herða aðgerðir á landamærum og núna síðast eru aðgerðir sem lúta að því að taka próf úr börnum, sem hefst um miðja næstu viku, og líka það að skylda fólk til að vera í sóttkví í sóttvarnahúsi sem kemur frá rauðum svæðum. Þetta er til þess að freista þess að ná enn þá betur utan um möguleg smit á landamærum.

Við á Íslandi höfum í öllum okkar ákvörðunum og aðgerðum alltaf forgangsraðað lífi og heilsu. Það hefur alltaf verið númer eitt. Aðrar ákvarðanir snúast um viðbrögð við annars vegar veirunni sjálfri og sjúkdómnum sem slíkum og hins vegar samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum sem hafa hlotist af sóttvarnaráðstöfunum. Þannig að andleg og líkamleg heilsa er alltaf efst á blaði og ég hef lagt mikla áherslu á það að vakta þessi áhrif og bregðast við þeim.