151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við höfum ákveðnar skyldur við fólk sem er alvarlega veikt í skipi við Íslandsstrendur og ef það kemur upp að það verða alvarleg veikindi um borð þarf íslenskt heilbrigðiskerfi að sinna því. Við höfum haft mjög öflugar sóttvarnaráðstafanir gagnvart þeim sjúklingum sem hafa þurft að leggjast inn vegna Covid-19 og við erum ekki með dæmi um það að slík tilvik hafi smitað út frá sér vegna þess að við pössum mjög vel upp á þessi tilvik.

Ég vil líka nefna það við hv. þingmann, af því að honum verður tíðrætt hér um það að börn séu að gráta, að við höfum í öllum okkar aðgerðum haft líf og heilsu fólks að leiðarljósi og sérstaklega hugsað um börn og ungmenni. Ég ætla að biðja hv. þingmann aðeins að endurskoða málflutning sem snýst um það að einhver vilji að börn séu grátandi.