151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:12]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út þær aðgerðir sem eru í gangi núna. Við gripum hratt og örugglega í handbremsuna og ef þetta gengur upp, sem við vonumst náttúrlega öll til — það lítur alveg þannig út, fáir smitaðir hafa verið utan sóttkvíar frá því að við að gerðum það — munum við þá ekki slaka jafnharðan á handbremsunni þegar við sjáum að við höfum náð að stoppa fjórðu bylgjuna, verði það bylgja? Það er númer eitt. Og er nokkur ástæða enn sem komið er til að ætla að þetta hafi áhrif á þá bjartsýni sem var komin gagnvart því að í maí yrði búið að bólusetja mun fleiri og við búin að ná betri tökum á þessu jafnt og þétt? Þó að aðgerðir séu hertar í þessar þrjár vikur núna, mögulega í styttri tíma ef vel gengur að stoppa þetta, er þá ekki bara sumarið, eins og við vorum farin að sjá það fyrir okkur frá og með maí, óbreytt nema eitthvað annað og stærra gerist?