151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

hertar sóttvarnareglur, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Enn og aftur þakka ég hæstv. forseta fyrir að halda tölu á þessum ræðum hér og væri ánægjulegt að fá samtöluna einhvern tímann, uppsafnaðar tölur. En að öllu gamni slepptu vil ég enn og aftur þakka fyrir góða umræðu hér og gott samtal við Alþingi. Ég held að þetta sé gott fyrirkomulag. Það var hér framan af þannig að ég kom hingað alloft áður en breytingar á sóttvarnalögum gengu í gildi en með breytingum á sóttvarnalögum er það tryggt og skýrt að séum við að glíma við faraldur af þessari stærðargráðu, og kannski ekki bara af þessari stærðargráðu heldur af einhverri stærðargráðu, þá sé það til bóta að ráðherra á hverjum tíma eigi samtal við Alþingi um stöðuna, um stöðu faraldursins. Ég held að það sé til góðs vegna þess að faraldur af þessu tagi snertir allar hliðar mannlífsins og snýst ekki bara um heilbrigðismál og heilbrigðisþjónustuna sem slíka.

Ég vil líka segja að ég er afar ánægð með það að umræðan hér endurspeglar fyrst og fremst samstöðu og vilja í þá veru að þó að við þurfum enn og aftur að setja undir okkur hausinn og snúa bökum saman í því að herða aðgerðir verulega innan lands þá vitum við að við höfum mjög góðan árangur að verja. Við höfum verið með afar góða stöðu innan lands og þar er helst að þakka samstöðu þessa samfélags sem við erum svo lánsöm að vera hluti af. Ég vænti þess að samstaðan í gegnum þessar þrjár vikur sem eru nú rétt hafnar muni skila okkur þangað að við getum aftur tekið til við bjarta daga.