151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

raforkulög og stofnun Landsnets hf.

628. mál
[13:18]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki nefnt ákveðin dæmi um það, en þetta kemur út úr þeirri vinnu sem við fórum í og fengum Deloitte til að halda utan um. Deloitte fundaði með öllum aðilum og lá yfir gögnum og vann þær greiningar sem við tókum síðan við og unnum frumvarpið upp úr, bæði með Deloitte og Orkustofnun. En í dag er það þannig að Orkustofnun fylgist ekki með fjárfestingum dreifiveitna. Ekki er verið að leggja til að allar framkvæmdir, alveg niður í algjörlega minni háttar framkvæmdir, séu sendar til Orkustofnunar og Orkustofnun liggi yfir minni háttar framkvæmdum. Lagt er til að koma þessu eftirliti á með því að dreifiveiturnar skili til Orkustofnunar áætlunum yfir fjárfestingar. Í raun er ekkert eftirlit í dag og hér er lagt til að bætt úr verði því vegna þess að innan regluverksins er ákveðinn hvati til að fresta viðhaldi án þess að það komi fram í tekjumörkum. Þetta er þá tillaga til þess að bæta úr því þannig að Orkustofnun geti haft meira eftirlit með því en í dag, með því að fara yfir stærri fjárfestingar dreifiveitna á hverjum tíma. Það er tillaga sem kemur út úr þessari vinnu. Það er metið sem svo að til staðar sé hvati til að fresta viðhaldi og hér er tillaga um að bæta úr því með þessum hætti.