151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

lýðheilsustefna.

645. mál
[13:46]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um lýðheilsustefnu til ársins 2030. Með vísan til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, sem samþykkt var á Alþingi árið 2019, er hér lögð fram tillaga til þingsályktunar um lýðheilsustefnu, en í áðurnefndri heilbrigðisstefnu koma fram þau markmið að íslensk heilbrigðisþjónusta verði á heimsmælikvarða og lýðheilsustarf, með áherslu á heilsueflingu og forvarnir, verði hluti af allri þjónustu, sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar. Sú tillaga til þingsályktunar sem hér er mælt fyrir er liður í því að ná þessu markmiði. Hún er enn fremur liður í því að skapa umræðu um lýðheilsu á Íslandi, en nauðsynlegt er að stefnumótun fyrir lýðheilsu hvíli á traustum grunni og ríkja þarf sátt um þau sjónarmið sem eru leiðarljós lýðheilsustefnu á Íslandi til ársins 2030.

Virðulegur forseti. Lýðheilsa er þverfaglegt hugtak sem hefur breiða skilgreiningu. Lýðheilsustarf í heild sinni byggist á þverfaglegu samstarfi og samvinnu í samfélaginu. Góð lýðheilsa er ekki aðeins háð lifnaðarháttum þjóðarinnar og góðu heilbrigðiskerfi heldur skipta félags- og efnahagslegir þættir, eins og menntunarstig, atvinna, jöfnuður og félagsleg tengsl, miklu máli sem og umhverfisþættir eins og húsnæði, slysavarnir og jafnvel löggæsla, en ekki síður aðgengi að hreinu vatni. Þess vegna er ljóst að stefnumörkun í öðrum málaflokkum en heilbrigðismálum snertir lýðheilsu á marga vegu, beint og óbeint. Við eflingu lýðheilsu þarf því að taka mið af öðrum stefnumálum með markvissa samvinnu og sameiginleg markmið í huga svo samlegðaráhrifin og árangur verði sem mestur. Þessi nálgun samræmist því markmiði stjórnvalda að tekið sé tillit til lýðheilsusjónarmiða í allri áætlanagerð og stefnumótun. Heilbrigðisvandi vegna langvinnra sjúkdóma hefur farið vaxandi og leitt til aukins álags á heilbrigðiskerfið á síðustu áratugum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur langvinna sjúkdóma, eins og hjarta- og æðasjúkdóma, krabbamein, lungnasjúkdóma og sykursýki og geðsjúkdóma, vera eina helstu ógn við heilsu manna. Í því ljósi er einnig talið mikilvægt að Alþingi ræði og álykti um lýðheilsustefnu til næstu ára.

Margvísleg tækifæri felast í þeim áskorunum sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir og þau tækifæri er mikilvægt að nýta. Eitt af megintækifærunum eru á sviði lýðheilsumála, með tilliti til heilsueflingar og forvarna vegna þess ávinnings sem fólginn er í slíkum aðgerðum bæði út frá lífsgæðum fólksins í landinu en einnig út frá efnahagslegum sjónarmiðum. Með því að leggja áherslu á að fyrirbyggja sjúkdóma og auðvelda fólki að velja heilbrigða lifnaðarhætti má draga úr líkum á því að það búi við slæma heilsu síðar á ævinni. Það er því mikilvægt að leggja áherslu á aðgerðir sem miða að betri lýðheilsu sem nær til allrar þjóðarinnar. Íslendingar eru í vaxandi mæli meðvitaðir um lífsstíl sem stuðlar að góðri heilsu. Góður árangur hefur náðst í því að draga úr tóbaksreykingum og skaðlegri notkun áfengis og þekking á mikilvægi rétts mataræðis og hreyfingar hefur aukist.

Í tillögunni er lögð megináhersla á heilsueflingu og forvarnir sem skulu verða hluti af allri þjónustu, sérstaklega hjá heilsugæslunni. Til þess að markmið stefnunnar verði að veruleika eru lögð fram meginviðfangsefni sem ætlað er að styrkja stoðir lýðheilsu á Íslandi með jafnrétti og jöfnuð að leiðarljósi.

Virðulegur forseti. Tillögunni er efnislega skipt upp í sjö kafla með sama hætti og samþykkt þingsályktunartillaga um heilbrigðisstefnu. Lagt er til að framtíðarsýn fyrir lýðheilsu á Íslandi verði sú að lýðheilsustarf verði markvisst á heimsmælikvarða og einkennist af þverfaglegu samstarfi heilbrigðisþjónustu, sérstaklega heilsugæslu og annarra hagaðila á Íslandi, t.d. sveitarfélaga, með áherslu á heilsueflingu og forvarnir. Lýðheilsustarf verði metið með því að mæla gæði, öryggi, árangur, aðgengi og kostnað sem og kostnaðarhagkvæmni. Til að sú sýn verði að veruleika er lögð áhersla á eftirfarandi viðfangsefni í meginköflum tillögunnar:

Forysta til árangurs. Í kaflanum eru lögð til stefnumið til að skýra hlutverk stjórnenda og vinna að bættri stjórnun og samhæfingu í lýðheilsustarfi á Íslandi.

Í öðru lagi er kaflinn Rétt þjónusta á réttum stað, en í honum eru lögð til stefnumið til að skapa heildrænt kerfi sem stuðlar að heilsu allra landsmanna og til að gæta að hagkvæmni og jafnræði.

Í þriðja lagi er kaflinn Fólkið í forgrunni. Í honum eru lögð til stefnumið til að tryggja markvisst lýðheilsustarf sem mætir þörfum notenda á einstaklingsmiðaðan hátt og sem stuðlar að heilsu allra landsmanna.

Í fjórða lagi Virkir notendur, en í þeim kafla eru lögð til stefnumið sem stuðla að virkri og ábyrgri þátttöku í lýðheilsustarfi.

Í fimmta lagi Skilvirk þjónustukaup, en í þeim kafla eru lögð til stefnumið til að stuðla að hagkvæmum og markvissum lýðheilsuverkefnum í samræmi við stefnu stjórnvalda og þarfir notenda.

Í sjötta lagi Gæði í fyrirrúmi, en þar eru lögð til stefnumið til að tryggja gæði og öryggi í lýðheilsustarfi.

Og loks í 7. kafla, sem ber yfirskriftina Hugsað til framtíðar, eru lögð fram stefnumið til að tryggja áframhaldandi þróun í lýðheilsu þjóðarinnar til framtíðar.

Í tveimur síðustu köflum tillögunnar eru lögð til stefnumið sem hafa það að markmiði að tryggja áframhaldandi þróun í lýðheilsu. Þannig er m.a. lagt til að heilbrigðisráðherra skipi starfshóp sem skrifi drög að frumvarpi til heildarlaga um lýðheilsu með áherslu á heilsueflingu og forvarnir og að gagnasöfnun um lýðheilsu þjóðarinnar verði tryggð. Þá er lagt til að gerðar verði áætlanir um aðgerðir í samráði við helstu aðila, svo sem sveitarfélög. Slíkar áætlanir verði uppfærðar árlega meðan stefnan er í gildi og heilbrigðisráðherra leggi árlega fram aðgerðaáætlun lýðheilsustefnunnar til umræðu á Alþingi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni þessarar tillögu til þingsályktunar og geri ráð fyrir að henni verði vísað til hv. velferðarnefndar að lokinni fyrri umræðu.