151. löggjafarþing — 75. fundur,  26. mars 2021.

afleiðuviðskipti, miðlægir mótaðilar og afleiðuviðskiptaskrár.

643. mál
[14:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um afleiðuviðskipti, miðlæga mótaðila og afleiðuviðskiptaskrár, nr. 15/2018. Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/834 um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 648/2012. Í því eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um afleiðuviðskipti sem byggjast á mati framkvæmdastjórnar ESB á gæðum lagasetningar og því hvort löggjöf hafi náð markmiðum sínum. Niðurstaða matsins var m.a. sú að nauðsynlegt væri að draga úr ýmsum kröfum reglugerðarinnar, aðallega þeim sem gerðar eru til ófjárhagslegra mótaðila og smærri fjárhagslegra mótaðila, og gera þyrfti aðrar breytingar til að bæta gæði þeirra upplýsinga sem safnað er um afleiðuviðskipti.

Virðulegur forseti. Frumvarpið felur því í sér að létt er á ýmsum kröfum til ófjárhagslegra mótaðila og lítilla fjárhagslegra mótaðila. Jafnframt er aukið að einhverju leyti við skyldur stórra fjárhagslegra mótaðila. Breytingarnar munu hafa áhrif á aðila hér á landi sem stunda afleiðuviðskipti en langflestir þeirra teljast ófjárhagslegir mótaðilar eða litlir fjárhagslegir mótaðilar.

Breytingunum er ætlað að einfalda ýmsar skyldur varðandi afleiðuviðskipti, jafna samkeppnisgrundvöll og minnka viðskiptakostnað án þess að draga úr gagnsæi hvað varðar afleiðumarkaði eða úr eftirlits- og inngripsheimildum eftirlitsaðila vegna kerfisáhættu.

Ekki er gert ráð fyrir að lagabreytingin leiði til kostnaðaraukningar fyrir fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands sem hefur eftirlit með lögum um afleiðuviðskipti.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.