Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með daginn. Mig langar að gera hér að umtalsefni pistil eftir hæstv. ferðamálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Það er vel hægt að hrósa ráðherra fyrir að ætla að festa flugþróunarsjóð í sessi, sjóð sem var settur á laggirnar 2013 og styður við aukið millilandaflug utan suðvesturhornsins. Til að mynda eru þrjú flugfélög sem fljúga til fimm áfangastaða frá Akureyri og það eru sannarlega lífsins gæði þegar fólk er laust undan því að þurfa að ferðast til Keflavíkur. Það sama má segja um Egilsstaðaflugvöll. Ég hef hug á því meðan ég sit hér inni að leggja enn og aftur fram tillögu um að jafna flutningskostnað eldsneytis til millilandaflugs, enda er það einn af lykilþáttum sem þarf að leiðrétta svo allir sitji við sama borð. Reykjavíkurflugvöllur er varaflugvöllur líkt og Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllur og þess vegna er augljóst að bæði Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöllur greiði sama verð fyrir eldsneyti og Reykjavíkurflugvöllur. Allir þessir flugvellir gegna sama hlutverki, eins og ég sagði. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra til að stíga skrefið til fulls og jafna þennan flutningskostnað því að ekki tókst það þegar núverandi hæstv. innviðaráðherra sat áður í stóli samgönguráðherra, en nú er lag. Og enn og aftur: Til hamingju með daginn, allar konur.