Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[15:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ársverðbólgan var 10,2% en það segir ekki alla söguna, eins og ráðherra fór yfir áðan þarf að minnast á undirvísitölurnar. Þær skipta líka máli því að þar eru liðir sem skipta heimilin öllu máli, eins og matur, ferðir, bensín, leiga, kostnaður á húsnæði. Þetta eru þeir hlutar vísitölunnar sem skipta flest heimili öllu máli. Allar þeirra ráðstöfunartekjur fara í þessi útgjöld og allar þessar undirtölur eru hærri en 10,2%. Matur hefur hækkað um 12,2%. Þetta kemur rosalega illa við veskið hjá fólki því að matur er stór hluti útgjalda þess í hverjum mánuði. Það skiptir öllu máli. Fyrir þessa aðila er verðbólgan ekki 10,2% heldur 12,2%.

Varðandi t.d. húsaleigu, eða í rauninni reiknaða húsaleigu, sem er dálítið áhugavert orðalag, þetta er kostnaður af því að eiga húsnæði, er þar 16,9% hækkun á einu ári — 16,9% hækkun. Það er kostnaður heimilisins í þeirri verðbólgu, ekki 10,2%. Bensín er 19,4% — 19,4%. Það er verðbólgan hjá þeim þar sem ferðakostnaður er mikill hluti af mánaðarlegum útgjöldum. Við þurfum nefnilega að skoða smáatriði málsins. Það er oft þægilegt að horfa á vísitöluna í heild, 10,2%. Þetta er agalega hátt en fyrir fólk með þær ráðstöfunartekjur sem það hefur, bara til að hafa mánuðinn af, (Forseti hringir.) þá skipta undirvísitölurnar meira máli. Maturinn skiptir máli. (Forseti hringir.) Húsaleigan skiptir máli. Bensínið skiptir máli. Við þurfum að horfa á það í stóra samhengi hlutanna og þar er (Forseti hringir.) staðan verri heldur en hún kemur fram almennt séð.