Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[16:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er mikilvæg umræða sem á sér stað í dag og ég vona að við höfum öll áhyggjur af verðbólgunni og ætlum að leggja okkur fram við að ná tökum á henni. Líkt og kom fram í máli hæstv. ráðherra er verkefnið tvíþætt. Það þarf að draga úr þenslu annars vegar en ég tel síðan að það þurfi aðgerðir til að styðja þá hópa sem hafa minnst bjargráð til þess að mæta áhrifum verðbólgunnar. Líkt og farið hefur verið yfir hafa réttir og mikilvægir hlutir verið gerðir í ríkisfjármálunum, svo sem að hækka örorkulífeyri og hækka húsnæðis- og barnabætur. Það þarf að halda áfram á þeirri braut því að það verður að styðja við þau sem hafa minnsta svigrúmið til þess að takast á við verðbólguna. En það verður þá líka að sækja tekjurnar þangað sem fjármagn er að finna. Við höfum svo sannarlega séð það í fréttum að sum hér í samfélaginu hafa verið að fá gríðarlegar launahækkanir. Sem betur fer hafa tekjulægstu hóparnir verið að hækka en það er ekki í neinu samræmi við það fjármagn sem tekjuhæstu hóparnir hafa og á þessu þarf að taka. Það er grafalvarlegt að það er erfitt fyrir tekjulágt fólk og fyrstu kaupendur að koma sér upp húsnæði en fjársterkir aðilar geta keypt upp eignir og eru jafnvel að leigja á okurverði. Á þessu þarf að taka því ef það er ekki gert er ég hrædd um að allt tal um einhvers konar þjóðarsátt (Forseti hringir.) sé algerlega tilgangslaust. Þjóðarsáttin þarf að vera um það að hér geti allir, við öll, lifað mannsæmandi lífi.