Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[16:17]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er gömul saga og ný að við verðum að ná tökum á verðbólgunni, styðja þar við aðgerðir Seðlabankans í þeim efnum. Verkefnið er tvíþætt. Annars vegar þurfum við að draga úr þenslu en á sama tíma styðja þá hópa sem minnst hafa. Í þessu samhengi er vert að minna á að síðastliðið vor greip ríkisstjórnin til þess að hækka örorkulífeyri, veitti barnafjölskyldum sérstakan barnabótaauka og hækkaði húsnæðisbætur til leigjenda um 10%. Húsnæðisbætur hækkuðu síðan um tæp 14% með fjárlögum ársins í ár, auk þess að eignarskerðingarmörk í vaxtabótakerfinu voru hækkuð um 50%. Með breytingum á barnabótakerfinu fjölgaði fjölskyldum sem fá stuðning, dregið var úr skerðingum og bæturnar hækkaðar. Með öðrum orðum: Hækkun húsnæðisbóta, vaxtabóta, barnabóta og bóta almannatrygginga. Áherslan hér eftir sem hingað til verður að vera að verja þau sem höllustum fæti standa.

Virðulegi forseti. Til að mæta þrálátri verðbólgu er mikilvægt að horfa bæði til aðgerða á tekju- og gjaldahlið, afla frekari tekna á sama tíma og við beitum aðhaldi í ríkisfjármálum. Hér geta komið til ýmis gjöld af auðlindanýtingu, svo sem af ferðamönnum. Þá er vert að minnast á hækkun fjármagnstekjuskatts á síðasta kjörtímabili en heimtur hafa verið umtalsvert umfram áætlanir. Uppgefnar fjármagnstekjur hækka um 65 milljarða kr. milli ára eða um 57% og eru 181 milljarður kr. Um er að ræða tekjur af arðgreiðslum, vöxtum, leigu- og söluhagnaði og tilefni er til að skoða möguleika á efra þrepi fjármagnstekjuskatts. Þá fáum við fréttir af ofurlaunum forstjóra og hagnaði íslensku bankanna en málshefjandi minntist á bankaskatt og ég tel það vel fýsilegt að skoða hækkun ýmissa skatta og gjalda, jafnvel tímabundið, til að bæta afkomu ríkissjóðs, enda virðist sem víða sé af nógu að taka.

Virðulegur forseti. Skattar gegna nefnilega tvíþættu hlutverki, annars vegar sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð og hins vegar til að jafna kjör í samfélaginu og auka félagslegt réttlæti.