Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[16:23]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að ræða grafalvarleg efnahagsmál í dag og næstu daga og ég læt tilvistarkreppu einstakra þingflokka mér í léttu rúmi liggja. Það er auðvitað gott að hæstv. ráðherra boði að ekki verði farið í flatan niðurskurð í fjármálaáætlun en ég tel það vera skammsýni hjá ráðherra að líta ekki bjartari augum til hugmynda okkar um leigubremsu. Það var merkilegt að hæstv. ráðherra notaði lungann úr ræðu sinni í að þylja upp og sannfæra þingmenn um það hvað almenningur hefði það nú gott og hefði notið mikilla framfara og vissulega hefur ýmislegt gott gerst en hann svaraði ekki spurningu minni hvort hann hygðist sýna aðhald þar sem þenslan er þrátt fyrir að ræðumenn Vinstri grænna og Framsóknar virtust raunar hvetja til þess. Þar á ég við metafkomu hjá fjármagnseigendum, mikinn hagnað hjá bönkunum og methagnað hjá stórútgerðinni.

Já, vel á minnst, herra forseti. Í morgun mátti nefnilega lesa frétt í Heimildinni þess efnis að arðgreiðslur útgerðarrisans Brims í ár séu nánast sama upphæð og veiðigjöld síðustu sjö ár. Í ljósi þessa verð ég að segja að ég er ekki viss um að ræða hæstv. ráðherra hér áðan hafi verið sérlega heppilegt og gott innlegg inn í það boð um þjóðarsátt sem ríkisstjórnin er að leggja til.