Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

Verðbólga og stýrivaxtahækkanir.

[16:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar rætt var um þjóðarsátt er augljóslega verið að tala um sameiginlegt átak til að verja þann mikla kaupmátt sem við höfum byggt upp á undanförnum árum sem birtist okkur m.a. í því að kaupmáttur lægstu launa er óvíða meiri heldur en einmitt hér og kaupmáttur bóta almannatrygginga óvíða meiri. Við höfum verið í gríðarlega mikilli sókn. Hér koma menn upp og telja upp einstaka undirliði vísitölunnar sem eru orsakavaldar í verðbólgu, nefna matvæli sérstaklega. Ég ætla bara að vekja athygli á því að matvæli eru að hækka minna á Íslandi en annars staðar. Aðrir segja óábyrgt að leggja upp með fjárlög ársins eins og fulltrúi Samfylkingarinnar segir hér, 120 milljarðar óviðunandi. Hver var tillaga Samfylkingarinnar við afgreiðslu fjárlaga? Hún var að bæta afkomuna (Gripið fram í.) — um hversu mikið? 4 milljarða. (Gripið fram í.) Þannig að 116 milljarðar — þetta er erfitt fyrir Samfylkinguna að hlusta á (Gripið fram í.) en staðreyndin er sú að 116 milljarðar var innlegg Samfylkingarinnar í að bæta afkomu ríkissjóðs í staðinn fyrir 120. Ég skal færa ykkur fréttir: Afkoma ríkissjóðs verður miklu, miklu betri heldur en lagt var upp með í fjárlögum vegna þess að við erum með sveiflujöfnun í kerfunum okkar, m.a. í tekjuöflunarkerfinu, sem veldur því að við fáum meiri tekjur þegar verðbólgan er meiri.

Ég tók eftir því að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefndi hér hversu óeðlilegt væri að sumir gætu gert upp í erlendum gjaldmiðlum. Ég hef tekið eftir því að þessu hefur verið haldið á lofti áður. Þó er það nú þannig að hv. þingmaður er eini þingmaðurinn á Alþingi Íslendinga sem greiddi atkvæði með lögunum um breytingu á lögum um ársreikninga árið 2002 til að innleiða þessar reglur í lög. Hv. þingmaður féllst með atkvæði sínu á það sem lagt var upp með á þinginu að það væri skynsamlegt, m.a. til að draga úr sveiflum í uppgjöri fyrirtækja sem hefðu meginþorra tekna sinna í erlendum gjaldmiðlum, að leyfa þeim að gera upp í erlendum gjaldmiðlum. En það er algjörlega óútskýrt hvers vegna þingmaðurinn hefur algjörlega skipt um skoðun.

Það er rétt að fólk hefur tapað trú á að við náum tökum á verðbólgunni og ég undrast það ekki að stjórnarandstæðingar ætli að kenna fjármálaráðherranum um það allt saman. (Forseti hringir.) Staðreyndin er nú sú að það eru margir sem þurfa að koma að málum og þegar menn skoða þetta af einhverri sanngirni þá er það skynsamlegt fyrir alla.