Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023 - 2026.

795. mál
[16:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023–2026. Þessi aðgerðaáætlun er sú fyrsta sem snýr eingöngu að hatursorðræðu og er hún unnin í forsætisráðuneytinu af starfshópi sem ég skipaði 16. júní síðastliðinn. Í þann hóp voru skipaðir fulltrúar frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, Jafnréttisstofu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Fjölmenningarsetri, embætti ríkislögreglustjóra, mennta- og barnamálaráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt voru þrír fulltrúar skipaðir af forsætisráðherra án tilnefningar.

Sú þingsályktunartillaga sem ég mæli nú fyrir samanstendur af 32 aðgerðum. Þær eru margvíslegar, snerta sumar mörg svið og þar af leiðandi fleiri en eitt ráðuneyti, sem og stofnanir, sveitarfélög, félagasamtök og hagsmunaaðila. Framsetning þessarar tillögu er á svipuðum grunni og framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2020–2023 og í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025. Hér eru öll verkefni tengd við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun á sambærilegan hátt og þær áætlanir. Til að tryggja eftirfylgni aðgerðanna verður sett upp mælaborð líkt og gert hefur verið með verkefni í áðurnefndum framkvæmdaáætlunum sem auðveldar eftirfylgni og gerir stöðu aðgerða skýra og aðgengilega.

Við gerð þessarar áætlunar voru m.a. höfð til hliðsjónar tilmæli Evrópuráðsins frá 2022 um baráttu gegn hatursorðræðu, aðgerðaáætlun norskra stjórnvalda gegn hatursorðræðu fyrir árin 2016–2020, tilmæli nefndar Evrópuráðsins um kynþáttafordóma og umburðarleysi, lokaathugasemdir nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám kynþáttamisréttis frá árinu 2019 og tilmæli í síðustu allsherjarúttekt á stöðu mannréttindamála sem fram fór í janúar 2022.

Við gerð þessarar áætlunar var haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila og í september 2022 voru haldnir sérstakir samráðsfundir með fulltrúum frá á þriðja tug hagsmunasamtaka og sérfræðinga þar sem sérstaklega var óskað eftir upplýsingum frá þeim um hvað mætti að þeirra mati betur fara í málaflokknum og hvaða aðgerða þau teldu nauðsynlegt að grípa til.

Í október síðastliðnum hélt ég svo opinn samráðsfund um aðgerðir gegn hatursorðræðu í Hörpu þar sem í raun hver sem er gat mætt og fengið færi á að fræðast og ræða hugmyndir og aðgerðir til að sporna gegn hatursorðræðu. Þar tóku um 100 manns þátt og það er alveg óhætt að segja að mjög fjölbreyttar skoðanir hafi komið fram af því að það er flókið að ná utan um þessi hugtök. Það er alveg ljóst að sú áhersla skiptir gríðarlegu máli sem finna má í þessari tillögu og gengur í raun gegnum hana eins og rauður þráður, að það er mikilvægt að við efnum til fræðslu og að við efnum til umræðu um þessi mál. En grunnurinn að þessari áætlun byggist á framangreindu samráði við hagsmunaaðila.

Frú forseti. Í stuttu máli sagt snýst þessi tillaga um það meginmarkmið okkar að öll eigi rétt á að lifa í öruggu samfélagi án þess að eiga á hættu að verða fyrir hatursorðræðu. Hún getur haft alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir þann einstakling sem hún beinist gegn sem og fyrir þann hóp sem sá einstaklingur tilheyrir. Hatursorðræða getur verið mjög misalvarleg en hún getur t.d. innrætt neikvæðar staðalmyndir og fordóma gagnvart tilteknum samfélagshópum, fætt af sér andúð og hatur í samfélaginu, leitt til mismununar og jafnframt leitt til þess að fólk dragi sig út úr opinberri umræðu sem aftur hefur bein áhrif á það lýðræðissamfélag sem við viljum hlúa að. Í alvarlegustu tilvikunum getur hatursorðræða leitt til ofbeldisbrota.

Ég vil nefna í þessu samhengi áhugaverða könnun eða rannsókn sem fjölmiðlanefnd kynnti á dögunum sem sýndi að ótrúlega hátt hlutfall fólks kýs að draga sig út úr umræðu á samfélagsmiðlum vegna mjög harðrar orðræðu. Það hlýtur auðvitað að vekja okkur til umhugsunar, okkur sem störfum á Alþingi og eigum allt undir því að lýðræðisleg umræða fái að blómstra í samfélaginu. Hvernig getum við tryggt það að öll treysti sér til að taka þátt í þessari umræðu? Af þessum sökum teljum við almenna vitundarvakningu í samfélaginu um birtingarmyndir og afleiðingar hatursorðræðu mikilvæga og er gert ráð fyrir sérstakri vitundarvakningarherferð í þessari áætlun. Það er gert ráð fyrir samráðsfundum og málstofum með hlutaðeigandi hagsmunaaðilum á afmörkuðum sviðum með málefnið, t.d. á sviði fjölmiðla. Fræðsla er mikilvæg og það er nú búið að ræða það sérstaklega í opinberri orðræðu og segja töluvert marga brandara um það að nú eigi að fara að senda alla kjörna fulltrúa í sérstakan skóla hjá forsætisráðherra, en hér er sem sagt verið að leggja til, og ég bið bara hv. þingmenn að skoða þetta vel, að útbúið verði netnámskeið með grunnfræðslu um eðli og afleiðingar hatursorðræðu. Það verður sérstaklega í boði fyrir nokkra markhópa. Þar er m.a. rætt um kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum og starfsfólk sveitarfélaga, starfsfólk Stjórnarráðsins og stofnana þess, skólastjórnendur, kennara sem og leiðbeinendur og þjálfara í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og svo dómara, ákærendur og lögreglu. Slíkt netnámskeið verður að sjálfsögðu í boði fyrir hvern sem er og þar með talið starfsfólk á almennum vinnumarkaði og hv. þingmenn ef þeir kjósa.

Í þingsályktunartillögunni er lögð sérstök áhersla á fræðslu til barna og ungmenna og að samráð verði haft við þau sjálf þegar kemur að þessu málefni, enda eru þær áskoranir sem þau standa frammi fyrir oft aðrar en þær sem fullorðnir standa frammi fyrir og þarfnast annars konar viðbragða. Það er mikilvægt að skapa rými þar sem börn og ungmenni geta komið á framfæri við stjórnvöld sjónarmiðum sínum varðandi hatursorðræðu og tekið þátt í samráði um aðgerðir gegn henni.

Gert er ráð fyrir að settur verði á laggirnar framkvæmdasjóður fyrir verkefni sem beinast gegn hatursorðræðu sem verður hýstur í forsætisráðuneytinu. Markmið hans er að efla starf stjórnvalda með úthlutun til verkefna ráðuneyta sem tengjast baráttu gegn hatursorðræðu. Við eigum slíka fyrirmynd í framkvæmdasjóði í jafnréttisáætlun og þá skiptir máli að við getum nýtt niðurstöður, reynslu og þekkingu sem fæst með slíkum verkefnum þvert á stjórnkerfið allt.

Frú forseti. Ég vil rifja það upp að síðasta vor var almennum hegningarlögum breytt. Gildissvið 180. gr. og 233. gr. a almennra hegningarlaga var víkkað. Nú veitir 180. gr. laganna sömu hópum og taldir eru upp í 233. gr. a vernd gegn neitun um vörur og þjónustu til jafns við aðra og fötlun og kyneinkennum var bætt við upptalninguna í 233. gr. a og þar með veitt sú vernd gegn hatursorðræðu sem ákvæðið mælir fyrir um. Á grundvelli nýs töluliðar sem bætt var við 70. gr. sömu laga skal nú jafnframt taka tillit til þess við ákvörðun refsingar hvort brot megi rekja til þar til greindra þátta, m.a. kynþáttar, þjóðernisuppruna, fötlunar og kynhneigðar.

Markmið þessara lagabreytinga var að bregðast við breyttum samfélagslegum viðhorfum til þessara brota og þeirrar háttsemi sem frumvarpið fjallaði um varðandi hatursorðræðu og að hluta til að fylgja eftir réttarþróun annars staðar á Norðurlöndunum. Sumar breytinganna tengjast einnig alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Ég vil nefna það af því að Evrópuráðið hefur auðvitað verið töluvert leiðandi í umræðu um baráttu gegn hatursorðræðu og Ísland fer þar með formennsku, við erum nú á þriðja mánuði okkar formennskuáætlunar og mér finnst skipta verulegu máli, eins og við höfum gert í ýmsum öðrum þáttum sem Evrópuráðið hefur verið að einbeita sér að, að við horfum líka til þessa málaflokks.

Ég nefndi hér lagabreytingarnar og ein aðgerðin í þingsályktunartillögunni sem ég mæli hér fyrir um er að meta reynsluna af þeim. Ætlunin er að meta hana frá gildistöku laganna, sem var 9. júní 2022 – 9. júní 2026, og úttektin verði unnin í samráði við hlutaðeigandi rannsóknaraðila á árunum 2025–2026. Ég held að þetta sé dæmi um eitthvað sem við mættum gera oftar þegar við breytum lögum, þ.e. að gera slíka úttekt á grundvallarlagabreytingum og meta hvernig þær hafa reynst í framkvæmd. Þannig skapast líka upplýstari grundvöllur fyrir ákvörðun um síðari tíma lagabreytingar ef þörf verður á.

Aðrar aðgerðir væru skoðun á því hvort rétt er að gefa út fyrirmæli eða verklagsreglur um rannsókn og ákærumeðferð mála fyrir lögreglu og ákærendur og koma upp því fyrirkomulagi að könnuð verði sérstaklega í þolendakönnun ríkislögreglustjóra reynsla almennings af hatursorðræðu, sem yrði þá liður í því að kortleggja hatursorðræðu á Íslandi, og gera könnun á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum um umfang mismununar gagnvart starfsfólki vegna tiltekinna mismununarþátta.

Ég nefndi hér Evrópuráðið og ein aðgerðin lýtur að því að ljúka við að fullgilda viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot svo unnt verði að vísa til viðbótarbókunarinnar sem fullgilds hluta samningsins hér á landi. Tvær aðgerðir lúta síðan að vinnu við að innleiða tvær reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins sem tengjast málinu. Það er innleiðing á tilskipun um innri markað fyrir stafræna þjónustu og breytingu á tilskipun frá 2000 um rafræn viðskipti og innleiðing á tilskipun frá 2018 sem breytir tilskipun frá 2010 um hljóð- og myndmiðlunarþjónustu og finna má í núgildandi fjölmiðlalögum.

Enn fremur inniheldur þingsályktunin aðgerð sem varðar það að tilmæli Evrópuráðsins um hatursorðræðu frá 2021 verði þýdd og kynnt og að sett verði á laggirnar sérstakt upplýsingavefsvæði þar sem fram komi upplýsingar um aðgerðir stjórnvalda gegn hatursorðræðu, bæði á íslensku og ensku, þar sem hægt er að nálgast upplýsingarnar á aðgengilegan og skýran hátt.

Á alþjóðavettvangi er í aðgerðaáætluninni lögð áhersla á að Ísland standi hér eftir sem hingað til vörð um mannréttindi og leggi áherslu á að sporna gegn hatursorðræðu í alþjóðlegu samstarfi.

Ég er nýkomin af kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna þar sem var fríður flokkur bæði þingkvenna og annarra kvenna úr frjálsum félagasamtökum og stofnunum sem vinna að kvenréttindum og kvenréttindabaráttu. Þar var töluvert fjallað um þau áhrif sem ný tækni hefur á stöðu kvenna og stúlkna, ekki síst stafrænt kynferðisofbeldi sem við höfum nýlega breytt lögum um til að geta tekist almennilega á við þær breytingar, og að sjálfsögðu líka hatursorðræðu sem fylgir því, því að við sjáum það að hatursorðræða snýst um svo marga þætti samfélagsins og kyn er að sjálfsögðu einn af þeim þáttum.

Frú forseti. Ég myndi telja það mjög stórt skref til að sporna gegn hatursorðræðu í samfélaginu ef við samþykkjum þessa fyrstu aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu hér á landi. Allar þessar aðgerðir snúast um það að bæta stöðu og réttindi fólks sem eru í viðkvæmri stöðu og á hættu á að verða fyrir hatursorðræðu í samfélaginu. Það skiptir máli að Alþingi sýni þann vilja í verki að við viljum virkilega sporna gegn slíkri orðræðu.

Ég hef sagt að eitt af því sem mér fannst veita mér hvað mestan innblástur í þessa vinnu voru frásagnir hinsegin ungmenna sem komu á minn fund og lýstu þeirri framkomu sem þau höfðu upplifað og reynt fyrir að vera hinsegin. Ég var slegin yfir því, ekki bara út af þeirri sögu sem þau höfðu að segja heldur líka vegna þess að Alþingi hefur á undanförnum árum stigið svo stór skref til að bæta löggjöfina, og ég held að við getum alveg með sanni sagt að löggjöfin er framsækin. En þegar við sjáum slíkt bakslag verða í orðræðunni þá tel ég það vera skyldu okkar að bregðast við í verki vegna þess að löggjöfin ein og sér er ekki nægjanleg. Menningin þarf að breytast með. Og raunar höfum við oft um það dæmi þegar framsækin löggjöf er samþykkt að það verður bakslag í kjölfarið. Þá skiptir máli að standa ekki hjá og láta það gerast heldur einmitt að tala skýrt og sýna viljann í verki.

Frú forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum þessarar tillögu og legg til að henni verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.