Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023-2026.

795. mál
[16:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og taka undir með henni um það að ég tel að hatursorðræða sé náskyld þeirri skautun sem við sjáum í samfélagslegri orðræðu. Að einhverju leyti spilar ný tækni þar inn í, þ.e. að fólk er dálítið fast inni í sínum hóp á samfélagsmiðlum. Þetta segir okkur líka að við erum ekki að gera nóg til þess að rjúfa einhvern veginn þá hópa og ná með fræðslu og umræðu til allra hópa. Þannig að ég held að þetta sé, já, nátengt. Við sjáum þetta birtast enn skýrar í ýmsum öðrum samfélögum og kannski að einhverju leyti getum við þakkað það smæð okkar en við höfum ekki farið varhluta af þessari þróun.

Hvað varðar námskeið fyrir kjörna fulltrúa þá er hér sérstaklega rætt um námskeið fyrir kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum sem er þá til samræmis við það sem hefur verið í fyrri framkvæmdaáætlun um jafnréttismál og hinsegin málefni þar sem við vorum með fræðslu. Ástæðan er sú, og ég vil ítreka það nú þegar þingið tekur þetta til skoðunar, að mér þótti ekki rétt sem fulltrúa framkvæmdarvaldsins að fara að segja Alþingi fyrir verkum. Ég myndi fagna því ef þingnefndin tæki þá afstöðu að það væri rétt að slíku námskeiði yrði líka sérstaklega beint að kjörnum fulltrúum á þingi. Ég held hins vegar að það þurfi að vera ákvörðun þingsins sjálfs en ekki framkvæmdarvaldsins að koma með þau tilmæli. En ég lít á það sem jákvætt og ég vil segja að bara í gegnum þetta ferli hef ég lært mjög mikið um hatursorðræðu. Ég var enginn sérfræðingur í henni og er ekki enn og ég held að við hefðum öll gríðarlega gott af því að taka þessa umræðu á dýptina. Við þingmenn tókum hér ágæta vinnustofu fyrir nokkrum árum um jafnréttismál sem var okkur öllum gagnleg. Ég myndi fagna því ef þingið ákvæði að taka þessi mál föstum tökum með sama hætti.