Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023 - 2026.

795. mál
[16:58]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það komu raunar athugasemdir við að ekki væri nægjanlegt fjármagn ætlað til þessa verkefnis en svona verkefni snúast ekki bara um fjármagn. Við gerðum ráð fyrir ákveðnu fjármagni við síðustu fjárlagagerð þannig að það liggur fyrir að við höfum úr fjármagni að spila. Það mun duga að okkar mati. Þetta snýst í raun og veru svo mikið um þessa fræðslu og umræðu þar sem við þurfum ákveðna grunnfjármögnun en stóra málið er líka bara t.d. hvernig við tökumst á við þetta mál hér á Alþingi. Ég vona svo sannarlega að nefndin gefi sér tíma til að fara ofan í skilgreiningarnar og eiga gott samtal um þetta en ekki síður vona ég líka að Alþingi gefi sér tíma til að eiga þessa umræðu inn á við, sem ég held að væri okkur öllum holl og gefandi. Það væri þá eitthvað sem við fengjum mögulega ef hv. allsherjar- og menntamálanefnd kemst að þeirri niðurstöðu í einhvers konar tillögu frá þeirri nefnd.