Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 75. fundur,  8. mars 2023.

efling barnamenningar fyrir árin 2024-2028.

804. mál
[16:59]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Kannski kann einhverjum að þykja það ankannalegt að ég sé hingað komin til að mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024–2028. Ég ætla aðeins að rekja sögulegan aðdraganda að því að ég stend hér og mæli fyrir þessu máli. Raunar var fyrst settur á laggirnar Barnamenningarsjóður í tilefni af lýðveldisafmælinu árið 1994, sem naut svo árlegs framlags frá Alþingi á fjárlögum, og sá sjóður var í umsjá mennta- og menningarmálaráðuneytis. Hins vegar féll sá sjóður af fjárlögum frá árinu 2016 og fjármagni sem áður hafði verið úthlutað í verkefni á vegum hans var varið í verkefni í aðgerðaáætlun mennta- og menningarmálaráðuneytis um menningu barna og ungmenna 2014–2017. Barnamenningarsjóður hinn fyrri var mun minni að umfangi en Barnamenningarsjóður hinn síðari.

Þá kemur nú að mínu hlutverki hér. Árið 2018 fengu hv. þingmenn sömu hugmynd og þeir höfðu fengið 1994 og þeir fögnuðu fullveldisafmælinu líka með því að setja á stofn Barnamenningarsjóð eins og þeir höfðu fagnað lýðveldisafmælinu, þannig að þótt ýmislegt breytist þá breytist sumt ekki. Ég nefni það bara til samanburðar að Barnamenningarsjóður hinn fyrri nam t.d. 3,7 milljónum árið 2012, þegar ég var í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, sem myndi jafngilda kannski 4,2 milljónum á verðlagi ársins 2018, en Barnamenningarsjóður hinn síðari hefur haft um 100 millj. kr. til úthlutunar árlega. Þá voru það formenn þeirra stjórnmálaflokka sem þá áttu sæti á Alþingi sem lögðu ályktunina fyrir á frægum hátíðarfundi Alþingis sem haldinn var á Þingvöllum 18. júlí 2018 í tilefni af 100 ára fullveldisafmælinu. Sjóðnum voru þá tryggð framlög á fjárlögum til fimm ára, 2019–2023, 100 millj. kr. á ári, og árlega hefur framlögum verið úthlutað úr sjóðnum til fjölbreyttra verkefna. Á árunum 2019–2022 var samtals 371,5 millj. kr. úthlutað úr sjóðnum til 149 verkefna. Alls bárust 440 umsóknir á tímabilinu en árlega hefur fjöldi umsókna verið á bilinu 106–113 og styrkveitingar á bilinu 34–42. Hefur um þriðjungur umsagna hlotið styrk. Hlutfall verkefna sem hafa fengið styrk og átt að framkvæma á höfuðborgarsvæðinu er nánast jafnt hlutfalli barna sem búsett eru í landshlutanum en í öllum öðrum landshlutum er hlutfall styrktra verkefna mun hærra en hlutfall búsettra barna af heildarfjölda barna í landinu. Því má með sanni segja að sjóðurinn hafi nýst börnum og stuðlað að eflingu barnamenningar um land allt. Úthlutað verður næst úr sjóðnum nú í vor.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá því í nóvember 2021 segir að sérstök áhersla verði lögð á að börn og ungmenni nýti tungumálið í leik og námi með auknu framboði á nýju námsefni á íslensku og með því að hlúa að barnamenningu. Í kafla um menningarmálin er kveðið á um það markmið ríkisstjórnarinnar að hrinda Menningarsókn — aðgerðaáætlun til 2030 í framkvæmd og að Barnamenningarsjóður Íslands, sem ég kalla nú hinn síðari, verði festur í sessi. Í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála skipaði ég í mars 2022 starfshóp til að móta tillögur um framtíðarstefnumótun um eflingu barnamenningar og meta árangur af starfsemi Barnamenningarsjóðs frá árinu 2018. Í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið var starfshópnum einnig falið að meta samlegðaráhrif eða aukið samstarf sjóðsins við barnamenningarverkefnið List fyrir alla. Þá gerði hópurinn úttekt á stjórnsýslu og starfsemi Barnamenningarsjóðs Íslands á árunum 2019–2022. Mér finnst það í sjálfu sér líka góð vinnubrögð að meta árangur og taka reglulega stöðu á svona verkefnum þegar þau leggja af stað, þ.e. ákveða hvort halda eigi áfram.

Starfshópurinn skilaði tillögu sinni til mín í janúar 2023 og kynnti ég hana í framhaldinu í ríkisstjórn. Meginefni tillögunnar, sem birtist í þessari þingsályktunartillögu, er þríþætt. Í fyrsta lagi að komið verði á samráðsvettvangi helstu aðila sem vinna að tillögum um framtíðarstefnumótun og framkvæmd á menningarstarfi fyrir börn og ungmenni sem hafa að markmiði að auðga bæði skólastarf og menningarlíf hér á landi. Lögð verði áhersla á samþættingu barnamenningar við starfsemi opinberra menningarstofnana og miðstöðvar listgreina annars vegar og við skólastarf hins vegar. Í öðru lagi að komið verði á fót miðstöð barnamenningar sem falin verði yfirstjórn með barnamenningarverkefninu List fyrir alla og starfsemi Barnamenningarsjóðs Íslands. Í þriðja lagi, sem ég legg mikla áherslu á, að umsýsla og ábyrgð á starfsemi Barnamenningarsjóðs færist frá forsætisráðuneyti til menningar- og viðskiptaráðuneytis þar sem þetta verkefni á augljóslega heima en hefur heyrt undir forsætisráðuneytið vegna þess aðdraganda að tillagan kom frá formönnum allra flokka 2018.

Hér er gerð tillaga um að verkefnið List fyrir alla verði varanlegt verkefni sem hafi það meginhlutverk að miðla listkynningum og menningarverkefnum í skólum landsins, gjarnan í samstarfi við opinberar menningarstofnanir. Listheimsóknir verði þannig sjálfsagður hluti skólastarfs á meðan skólaskylda varir og reglulegir listviðburðir hluti af daglegu lífi barna og ungmenna. Þá er lagt til að Barnamenningarsjóður Íslands verði varanlegur sjóður sem njóti framlaga af fjárlögum. Meginhlutverk Barnamenningarsjóðs Íslands verði að styrkja menningarverkefni fyrir börn og ungmenni, einkum verkefni listamanna, list- og menningartengdra stofnana, félagasamtaka og annarra sem sinna lista- og menningarstarfi í samræmi við opinbera menningarstefnu. Þá felur tillagan í sér að sett verði á fót Miðstöð barnamenningar sem hafi yfirumsjón með þessum tveimur verkefnum.

Þessi tillaga var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og bárust 14 umsagnir. Meginbreytingin sem gerð var í kjölfar þessa samráðs varðaði mönnun stjórna og upptalningu samstarfsaðila þótt það sé nú á engan hátt tæmandi listi. Ég vil segja það að hér á landi er víðtækt stuðningskerfi fyrir listafólk og menningartengda starfsemi. Sú starfsemi hefur þróast mikið samferða samfélagslegum breytingum. Það er mikilvægt að við fylgjumst með þeim breytingum og hugum að úrbótum. Við verðum að hafa í huga þá menningarlegu fjölbreytni sem við búum yfir í íslensku samfélagi og mikilvægi þess að menningarlífið endurspegli hana. Því er mikilvægt að efla menningarlæsi í samfélaginu og tryggja öllum börnum og ungmennum aðgang að menningu og listum við hæfi. Fjölbreytni í menningarlífi stuðlar að jöfnuði og aukinni velsæld í samfélaginu. Þessi aðgerðaáætlun byggist á þeirri framtíðarsýn að menningarlæsi, menningarþátttaka og miðlun menningararfs eigi að vera veigamikil atriði í uppvexti og skólastarfi barna og ungmenna og að starfsemi á þessu sviði endurspegli fjölbreytta samsetningu þjóðarinnar og þá alþjóðlegu menningu sem býr í íslensku samfélagi. List fyrir alla og Barnamenningarsjóður Íslands hafa klárlega komið til móts við raunverulega þörf í íslensku menningar- og listalífi. Það er lykilatriði að byggja áfram upp á þeim góða grunni og tryggja að allar kynslóðir barna fái tækifæri til að sinna menningar- og listastarfi á sínum eigin forsendum.

Það er kannski það síðasta sem ég vil segja hér, frú forseti, að við vitum það af sögunni, og ef við þekkjum vel sögu menningarstarfs þá er það nú svo að menning og listir fyrir börn og ungmenni á það til að lenda neðst á dagskránni hjá þeim aðilum sem eru að sinna lista- og menningarstarfi, á það til að vera síður metin. M.a. þess vegna höfum við stofnað til sérstakra barnabókaverðlauna til að tryggja það að bækur fyrir börn og ungmenni njóti sömu athygli og umræðu og bækur fyrir þau sem eru eldri. Ég hef séð það með eigin augum, af því að nú hef ég verið viðstödd þær úthlutanir sem hafa verið úr þessum sjóði árlega, að það eru alveg ótrúlega fjölbreytt verkefni sem eru að fá styrki. Það eru verkefni sem annars hefði ekki verið sinnt. Því tel ég að þessi sjóður hafi í raun og sann uppfyllt þörf sem var til staðar. Við höfum séð síðan nýjar kynslóðir barna, því að þær endurnýja sig sem betur fer reglulega. Þannig að ég held að það skipti miklu máli að með þessum sjóði og með þessari heildarsýn, þar sem List fyrir alla og Barnamenningarsjóður Íslands koma saman undir einni miðstöð, séum við að formfesta umgjörð í kringum lista- og menningarstarf fyrir börn og ungmenni sem skilar miklum árangri fyrir samfélagið allt til lengri tíma því að þetta er líka svo gríðarlega mikilvægt atriði til að tryggja jöfnuð og velsæld í hverju samfélagi.

Í anda þess þegar þessi sjóður var settur á laggirnar fyrir fimm árum þá vonast ég til þess að umræðan hér á Alþingi og meðferð hv. allsherjar- og menntamálanefndar skili því að við getum aftur náð samstöðu um að standa með listum og menningu fyrir öll börn í þessu landi. Ég legg til að málinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.