131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kosningarnar í Írak.

[10:58]

Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu og fagna sérstaklega þeim sem leyfðu sér að viðurkenna að þeir sæju ljós í myrkrinu.

Mig langar að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin og líka fyrir góðar undirtektir við þeirri ábendingu minni um að styðja sérstaklega stjórnmálaþátttöku kvenna í Írak og ég fagna einnig orðum hæstv. ráðherra um samráð við utanríkismálanefnd um þetta málefni.

Herra forseti. Konurnar í Írak náðu 33% hlut sínum fyrir atbeina Sameinuðu þjóðanna, fyrir þriðjungskvóta sem þeim var tryggður. Sameinuðu þjóðirnar hafa víða við svipaðar aðstæður farið þessa sömu leið til að tryggja aðkomu kvenna að stjórnmálalífinu. Kostur þess að koma konum þannig inn á vettvang stjórnmálanna er m.a. talinn sá að þær verði með því síður fyrir aðkasti og ógnunum sem þær gjarnan verða fyrir í arabaheiminum fyrir það að fara út fyrir hefðbundin og menningartengd hlutverk sín.

Það er svolítið athyglisverður punktur sem maður les m.a. um í skýrslunni Konur, stríðið og friður, þar sem bent er á þetta. En það eru þá rök fyrir kvótanum.

En þó að þessum árangri sé náð, herra forseti, um hlut kvenna á írakska þinginu er ljóst að þær eiga mjög langt í land með að hafa áhrif og völd í einhverju samræmi við hlut þeirra á þingi. Ég tel að stuðningur við stjórnmálaþátttöku þeirra geti skipt sköpum um hvernig tekst til.