131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

435. mál
[11:08]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S):

Herra forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2004, um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun nr. 2003/88/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma.

Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir. Með tilskipuninni er verið að sameina í eina heild tilskipun eldri gerðar um sama efni en að hluta til er um nýmæli að ræða.

Tilskipunin felur í sér lágmarksreglur um skipulag vinnutíma að teknu tilliti til öryggis og heilbrigðis starfsmanna. Hún gildir um daglegan og vikulegan lágmarkshvíldartíma, árlegt orlof, um hlé á hámarksvinnutíma á viku og tiltekna þætti í tengslum við næturvinnu, vaktavinnu og vinnumynstur. Efni tilskipunarinnar hefur verið innleitt í íslensk lög að því er varðar flestar starfsgreinar en innleiðing tilskipunarinnar krefst lagabreytingar að því er varðar þær stéttir sem ekki falla undir vinnutímareglur laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og aðrar reglur gilda ekki um. Unnið er að innleiðingu tilskipunarinnar í félagsmálaráðuneytinu.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.