131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Endurnýjanlegir, innlendir orkugjafar í samgöngum.

52. mál
[15:13]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er alveg undrandi á þessum neikvæða tóni hv. þingmanns. Ég er ekkert hissa á að hinn þýski vinur hv. þingmanns skuli hafa orðið undrandi ef þetta eru þær upplýsingar sem hv. þingmaður veitir erlendum gestum okkar. Það er umhugsunarefni, ekki síst af því að hv. þingmaður er í alþjóðlegu samstarfi. Ef þetta er sú rödd og þær upplýsingar sem bornar eru til útlanda þá hef ég áhyggjur af því vegna þess að hér var skautað mjög frjálslega yfir ýmsar staðreyndir.

Hér er talað um að lítið hafi verið gert. Flestar þjóðir fagna því að okkar ríkisstjórn skuli vera fyrst til að taka þessa ákvörðun, stefnumörkunina. Flestir aðrir en hv. þingmaður virðast meta það einhvers. Allar aðrar þjóðir horfa öfundaraugum til Íslendinga einmitt fyrir þá stefnumörkun. Sagt er að lítið hafi verið gert. Hér er búið að festa ákveðna þætti í lög til þess einmitt að gera skattumhverfið þægilegra fyrir vistvæna bíla eins og fram kom fyrr í umræðunni. Hér er fyrsta vetnisstöðin í veröldinni. Hér eru þrír vetnisvagnar og þær áætlanir sem ég nefndi í fyrri ræðu minni. En svo kemur þingmaðurinn og segir: „Það er lítil innstæða. Það er lítið gert.“ Það er rangt hjá hv. þingmanni að það sé bara einhvers konar samstarf við Íslenska VistOrku. Í fyrsta lagi þá er samstarfið við Íslenska NýOrku og það er samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar að fela því fyrirtæki hina praktísku hluti, að hrinda málunum í framkvæmd með erlendum aðilum en það sé ekki gert hjá ráðuneytum eða á vegum hins opinbera. Það var talin skynsamlegasta leiðin og ég styð þá stefnu.

Það er líka rangt hjá hv. þingmanni að ekki hafi verið gert ráð fyrir vetnisvæðingu í orkuspá okkar. Hefði hv. þingmaður setið síðustu orkuþing þá vissi hv. þingmaður betur.