136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:53]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eltast við orð þingmannsins. Hann misskildi mig greinilega í fyrra andsvari og ætti að hlusta á útsendinguna til að skilja betur það sem ég fór yfir í því. Mig langar til að spyrja hann um tvö tiltekin atriði í frumvarpinu. Í 3. gr. segi, með leyfi forseta:

„Forfallist seðlabankastjóri getur forsætisráðherra sett seðlabankastjóra tímabundið í stað hans.“

Fyrri spurningin er hvaða menntunarkröfur sá þarf að uppfylla. Hin síðari er hvað tímabundið þýðir í þessum lögum. Er það mánuður, hálfur mánuður eða eitthvað annað? Ég vil fá að heyra álit hans á þessum spurningum.

Jafnframt kemur fram í ákvæði til bráðabirgða nr. 2 að setja megi mann sem uppfylli skilyrði laga þessara til að gegna embætti seðlabankastjóra. Hvað má settur seðlabankastjóri vera lengi samkvæmt þessum lögum? Það er ekki tilgreint og ég vildi gjarnan fá að heyra um hvað menn eru að hugsa þar. Er verið að tala um einhverja tímalengd eins og með nýskipaðan skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu sem settur er fram yfir kosningar eða hvaða tímamörk er verið að ræða? Ég vildi gjarnan fá að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu og vonandi verður þetta tekið upp að einhverju leyti í nefndinni.