136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:04]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er enginn vafi á því í mínum huga að þetta frumvarp er ótvírætt framfaraskref. Ég held að með því komist loks á það stjórnskipulag og sú aðferðafræði sem á að viðhafa í nútímalegum seðlabanka, þ.e. að byggt sé á faglegu vali forustumanna og búið sé til ákvarðanatökuteymi sem hefur sterkan faglegan bakgrunn og taki hinar mikilsverðu ákvarðanir.

Mér finnst mikilvægast að menn ræði efnið sjálft, þ.e. það frumvarp sem hér er undir. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að þingmenn vilji ræða ýmislegt sem tengist stöðu efnahagsmála, hvernig peningamálastefnan hefur reynst eða ekki reynst að undanförnu. En það breytir auðvitað ekki því að það sem við erum hér að fjalla um er lagarammi um starfsemi og skipulag Seðlabankans. Verkefnin eru síðan ekki útfærð í lagatexta heldur eru þau í höndum þeirra sem um véla, stjórnvalda og bankans að því leyti sem hlutir eru ákvarðaðir sameiginlega eins og hin sameiginlega yfirlýsing ríkisstjórnar og bankans frá því í mars 2001 er til marks um. Og síðan er bankinn að sjálfsögðu sjálfstæður í sínum ákvörðunum.

Það vill svo til að ég þekki nokkuð til forsögu gildandi laga um seðlabankana því að ég sat í þeirri nefnd sem undirbjó það frumvarp og samdi það. (Gripið fram í: Nefnd allra flokka.) Nefnd allra flokka. Alveg hárrétt. Þar var nú ýmislegt rætt og frumvarpið varð að lokum eins og oft vill verða tiltekin málamiðlun milli margra sjónarmiða sem þar voru uppi. Þar var í aðalatriðum ekki djúpstæður ágreiningur um að það var orðið löngu tímabært að breyta Seðlabankanum. En að lokum náðist ekki full samstaða um það hversu langt skyldi ganga og hvort það verkefni yrði klárað eða ekki. Það veit að því sem aðallega er undir í þessu frumvarpi. Þau sjónarmið voru flutt fram mjög sterkt í nefndinni, þar á meðal af þeim sem hér stendur, að þessu verki ætti að ljúka til fulls og að breyta ætti lögunum um Seðlabankann þannig að þar yrði einn faglega skipaður seðlabankastjóri.

Það var líka mikið rætt um peningastefnunefnd eða peningastefnuráð. Það stóð dálítið í mönnum að fordæmin frá nálægum löndum eru flest nokkuð viðamikil og fjölmenn slík ráð eða nefndir, allþung í vöfum og eru einfaldlega á mannamáli sagt sennilega líka alldýr vegna þess að í þeim situr allmikill fjöldi manna sem yfirleitt gefur ekki vinnu sína.

Niðurstaðan á sínum tíma í nefndinni varð sú að ekki var stuðningur eða meiri hluti við að fara alla leið. Í raun og veru var því, eins og ég lít á það, slegið á frest að klára breytingarnar á skipulagi Seðlabankans að þessu leyti. Flestir voru sammála um að þetta væri það sem þyrfti að stefna að, að straumlínulaga stjórnkerfi Seðlabankans eins og búið er að gera eða yfirleitt er gert í löndum í kringum okkur sem við berum okkur saman við. Eins væri heppilegra að einhver nefnd eða ráð hefði að hluta til annan bakgrunn en bankastjórn hefur núna eða yfirmenn á viðkomandi sviðum bankans einir bera með sér. Gjarnan sjá menn þá fyrir sér að sóttir séu sérfræðingar úr akademíunni eða úr viðskiptalífinu eða menn með mikla reynslu á því sviði sem látið hafa af störfum eða hvernig sem það nú er, sem kæmu inn í peningastefnuákvarðanirnar og bæru með sér sjónarmið t.d. úr viðskiptasamfélaginu eða háskólasamfélaginu.

Niðurstaðan varð sem sagt sú að menn lögðu ekki í að klára verkið. Menn lögðu ekki í að klára breytingarnar. Ég held að það eigi ekkert að ræða um þetta öðruvísi en þetta er. Við sitjum enn uppi með arf gamals tíma hvað það varðar að hér eru þrír bankastjórar og þeir voru um áratugaskeið í raun og veru tilnefndir inn í bankann af þremur mismunandi stjórnmálaflokkum. Það átti hver flokkur sinn mann. Það þarf ekkert annað en að fara yfir það hverjir hafa setið í bankastjórn Seðlabankans á umliðnum árum og áratugum til að sjá þessa staðreynd í björtu ljósi. Það er ósköp einfaldlega þannig. Oftast voru það þá þeir flokkar sem saman fóru með völd í ríkisstjórn á hverjum tíma sem sáu um að þeir ættu þarna sín sæti.

Sagan geymir meira að segja tímabil þar sem menn geymdu sæti, þar sem bankastjórn Seðlabankans var ekki fullskipuð í þó nokkurn tíma vegna þess að það var geymt sæti sem tilheyrði tilteknum flokki og hann var ekki klár með manninn í það. Þetta er bara svona, virðulegi forseti. Það á ekkert að vera að ræða þetta með einhverri tæpitungu. Spurningin er: Viljum við ekki fara í burt frá þessari arfleifð og segja nú endanlega skilið við hana? Ég hélt að það gæti ekki verið mikill ágreiningur um að á hinu nýja Íslandi ættum við ekki að hafa þetta svona. Ef það er nú eitthvað sem menn vilja virkilega skilja eftir sig er það óheppileg samblöndun stjórnmála og faglegra málefna eins og þessi arfleifð er auðvitað til marks um.

Þess vegna fagna ég því alveg sérstaklega að hér koma inn skilgreindar hæfniskröfur og það er algerlega í gadda slegið, eins og núverandi hæstv. utanríkis- og iðnaðarmálaráðherra mundi kannski orða það, að um faglega ráðningu er að ræða á grundvelli auglýsingar þar sem valinn er sá hæfasti, hann fær starfið. Ég held að það sé tvímælalaust framfaraspor.

Sem fjármálaráðherra líst mér líka ágætlega á að í þessu er auðvitað fólginn sparnaður. Samanber kostnaðarmat fjárlagaskrifstofunnar veldur þetta nánast engum viðbótarkostnaði innan árs sem í hönd fer og strax á næsta ári má ætla að af þessu verði kannski 25 millj. kr. sparnaður. Þetta er einfaldari yfirstjórn á bankanum og ódýrari. Mér líst bara ágætlega á það miðað við það sem ég hef í höndunum og horfi t.d. til ársins 2010. Það munar um allt. Margt smátt gerir eitt stórt.

Ef við náum því hvorutveggja í senn að gera Seðlabankann faglega skipaðan og að endurreisa á honum og öllu kerfinu meira traust og við trúum því að þessar breytingar gangi í rétta átt, held ég að við hljótum að vera ánægð með það.

Mér finnst mikilvægast að við ræðum efni frumvarpsins og spyrjum okkur að því — menn geta svo skemmt sér við að ræða svona ýmsa pólitík í kringum það: Er þetta ekki það skipulag sem við viljum hafa? Og ef það er niðurstaðan hljótum við að drífa í því að afgreiða þetta mál. Það er tiltölulega einfalt þótt að sjálfsögðu sé rétt alltaf að vanda til verka og skoða hlutina.

Ég er svo alveg sammála því sem hér var tilefni til orðaskipta áðan, að að sjálfsögðu þarf að fara í það verk sem er búið að standa til í eitt og hálft ár, ef ég man rétt, að fara í gagngert endurmat á peningastefnunni og virkni hennar og hvernig við ætlum að skipa þessum málum í framhaldinu. Í mínum huga er það alveg augljóst mál að það þarf að vega og meta mjög vel alla kosti sem snúa að stöðu gjaldeyrisins og Seðlabankanum og hinu miðlæga hlutverki hans í því að reyna að tryggja hér stöðugt verðlag og stöðugt gengi. Ég held að mistökin á sínum tíma í nálguninni frá 2001 hafi legið í því að menn trúðu of mikið í blindni á að nægjanlegt væri að Seðlabankinn horfði á bara eitt markmið, verðstöðugleikann, og annað hlyti að laga sig sjálfkrafa að því og væri í lagi ef Seðlabankinn með stýritækjum sínum, fyrst og fremst vaxtaákvörðunum, gæti haldið verðbólgunni lágri og rólegri.

Annað kom á daginn. Í fyrsta lagi náðist það markmið nánast aldrei. Það var í örstuttan tíma eftir gildistöku laganna sem verðbólgan var innan viðmiðunarmarkanna sem sett voru með hinni sameiginlegu yfirlýsingu 27. mars 2001, ef minni mitt svíkur ekki. Síðan var þetta eilífur barningur við verðbólgu sem var langt ofan við þau vikmörk. Af þeim barningi leiddu aðrir hluti sem juku á óstöðugleikann í kerfinu. Það var t.d. alveg ljóst að ein okkar meginmeinsemd var hinn mikli vaxtamunur milli Íslands og erlendra landa sem sogaði fé inn í landið og sem jók síðan á óstöðugleikann og er óleystur hausverkur að talsverðu leyti í dag. Það erlenda kvika fjármagn sem hér er enn í hagkerfinu og mundi sjálfsagt taka í einhverjum mæli til fótanna ef ekki væru þær takmarkanir á og þeir háu vextir sem hér eru þrátt fyrir allt í boði.

En það er oft þannig að um leið og menn reyna að leysa eitt vandamál verða til önnur og stundum jafnvel verri hinu fyrra. Auðvitað eru þetta alveg ótrúlega snúnar aðstæður fyrir Ísland að sitja fast í þessum himinháu vöxtum á sama tíma og vextir eru lækkaðir niður undir ekki neitt í öllum nálægum löndum sem viðleitni seðlabanka og stjórnvalda þar til að bregðast við samdrætti og vaxandi kreppu.

Það þarf auðvitað engin orð um það að hafa hversu ólánlegt það er fyrir okkur að sitja föst í þessum aðstæðum en fyrir því eru ástæður sem menn þekkja og er hægara sagt en gert að komast út úr. Þá er ég nú m.a. að tala um það fé sem er inni í hagkerfinu og ég er að tala um þörfina á því að styrkja gengi krónunnar og ná því stöðugu.

Um þetta mætti nú allt saman ræða en það er ekki beint tengt efni þessa máls nema sem afleiddur hlutur. Við erum hér að ræða einfalt frumvarp sem snýr að endurskipulagningu stjórnkerfis Seðlabankans og að færa það í þessa átt sem frumvarpið ber með sér. Ég er ekki í neinum minnsta vafa um að það er það skref sem við eigum að taka og þótt fyrr hefði verið. Ég held satt best að segja að það hafi verið mikil mistök að gera það ekki strax 2001 og ég get alveg játað á mig mína ábyrgð á því að hafa kannski verið of linur og gefið þau sjónarmið eftir ásamt fleirum inni í nefndinni sem vildum þá strax fara þessa leið. Hverju það hefði svo breytt fyrir Ísland og stöðu þess í dag er auðvitað ómögulegt að segja.

Herra forseti. Það mun hafa verið óskað eftir viðveru minni hérna við umræðuna sem ég er auðvitað hæstánægður með. Ég var hérna reyndar fram undir hádegi í dag og mætti af sjálfsdáðum hingað án þess að hafa fengið nein skilaboð um að mín væri óskað. Af því að mig langaði til að taka þátt í umræðunni og fylgjast með henni eins og ég get þá geri ég það með ánægju eins lengi og tíminn leyfir. En ég hef öðrum skyldum að gegna lítið eitt seinna í dag. Ég þarf að taka á móti góðum gesti, fjármálaráðherra Noregs, sem hingað er að koma. Ég vænti þess að hv. þingmenn hafi skilning á því og umberi að ég verð þá að hverfa frá umræðunni þegar eitthvað líður á, enda hæstv. forsætisráðherra kominn í salinn og því vel skipað þar sem hún er og flytjandi málsins.