136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:27]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að hæstv. heilbrigðisráðherra fari ekki í manngreinarálit og geri ekki greinarmun á skúringarkonunni annars vegar og forstjóranum hins vegar. (ÁI: Ertu hissa á því?) Við eigum það þá sameiginlegt við tveir. En mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í gagnsæi og samráð.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur verið í fararbroddi allra þingmanna í því að fjalla um vinnubrögð í þinginu og við höfum oft tekist á um það, ég og hæstv. heilbrigðisráðherra, meðan hann var í stjórnarandstöðu. Hann hefur gengið hvað harðast fram í því að haft verði samráð við stjórnarandstöðu og í aðdraganda þess að sú ríkisstjórn sem nú er komin til valda varð til lýsti hann því að allar upplýsingar ættu að koma upp á borðið. Það ætti að upplýsa almenning um allt.

Við ræðum nú frumvarp til laga um breytingu á Seðlabanka Íslands og höfum óskað eftir því að fá upplýsingar um það, stjórnarandstaðan hér á þingi, hver kom að samningu þess frumvarps. Til hvaða sérfræðinga leitaði ríkisstjórnin við samningu þessa frumvarps, þessa mikilvæga frumvarps fyrir okkar efnahagslíf og fyrir fjármálamarkaðinn, og okkur hefur verið neitað um svör. Hæstv. forsætisráðherra hefur upplýst um að leitað hafi verið til sérfræðinga við samningu frumvarpsins en neitaði okkur um að upplýsa hverjir það eru. Okkur hefur líka verið neitað um að fá upplýsingar um það hvaða fyrirmyndum frumvarpið byggist á eða styðst við, fyrirmyndir um fyrirkomulag stjórnsýslu seðlabanka í öðrum löndum. (JM: Byggir á frumvarpi mínu.) Það gengur náttúrlega ekki í öðru orðinu að krefjast þess að allar upplýsingar séu á borðinu (Forseti hringir.) en í hinu orðinu að neita þingmönnum um að fá að vita (Forseti hringir.) til hvaða sérfræðinga ríkisstjórnin leitaði. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) hvort hann sé stoltur (Forseti hringir.) af þessum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar.