136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[18:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af síðasta andsvari hæstv. forsætisráðherra þá held ég að það sé samdóma álit okkar sem erum í þessum sal að eftir þá atburði sem urðu í íslensku fjármálalífi í haust sé mikilvægt að endurreisa traust á íslensku fjármálakerfi. Þar höfum við sjálfstæðismenn lagt áherslu á ýmsa þætti og við höfum aldrei útilokað að það gæti komið til breyting á skipulagi Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og annarra stofnana sem þarna fara með völd. Það er auðvitað mikilvægt að horft sé á þessa þætti þegar þetta mál verður afgreitt úr nefnd og vel farið yfir þá þætti sem máli skipta í því sambandi. Ég held að fagleg vinnubrögð við setningu laga um Seðlabankann séu afar mikilvæg einmitt til að skapa það traust sem hæstv. forsætisráðherra minntist á í lok síðara andsvars síns.

Þar sem frumvarpið sjálft ber ekki með sér að um vandaðan undirbúning hafi verið að ræða held ég að nauðsynlegt sé að fram fari vönduð vinna í þeirri þingnefnd sem fær málið til meðferðar, að farið verði yfir þessa þætti, farið verði yfir þau gögn sem lágu til grundvallar þegar frumvarpið var samið og vegnir og metnir þeir mismunandi kostir sem eru í sambandi við skipan þessara mála. Ég held að það sé afar mikilvægt. Það skiptir t.d. máli að fara yfir þann samanburð sem hæstv. forsætisráðherra segir að skoðaður hafi verið í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá árinu 2005, það skiptir máli að farið verði yfir þau rök og sjónarmið sem bjuggu að baki þeim eldri frumvörpum sem hæstv. forsætisráðherra vísaði til og það skiptir líka máli að fram komi hvaða nýju sjónarmið eða nýju athugasemdir, ný sérfræðiráðgjöf var lögð til grundvallar þegar gengið var frá þessu frumvarpi. Það er mikilvægt að allt þetta verði leitt í ljós í nefndinni.

Fyrir mitt leyti er ég sammála hæstv. forsætisráðherra um að mikilvægt er að óvissu verði eytt í þessu sambandi og að frumvarpið fái eðlilega og góða meðferð í þinginu, greiða meðferð, en hins vegar má það ekki verða á kostnað gæða nefndarstarfsins. Ég verð að segja eins og ég sagði í fyrri ræðu minni að það sem upp á vantar í sambandi við frumvarpið sjálft og undirbúning þess verðum við að reyna að bæta upp í nefndarstörfum í þinginu.

Ég ítreka að lokum það sem ég nefndi í upphafi að það er mikilvægt fyrir okkur öll að standa þannig að málum að traust á íslenska fjármálakerfinu verði eflt. Það er mikilvægt að við vöndum okkur við það verk og það er ekki til bóta að vaða fram með vanhugsuð frumvörp uppfull af alls konar götum eins og mér finnst hér vera á ferðinni.