138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti og hv. þingmenn. Mig langar að kveðja mér hljóðs um það sem ég lít á sem vegsemd og störf Alþingis og starfshætti í þágu almennings í landinu. Eins og ég hef oft tæpt á er mér að aukast efi um að Alþingi sem slíkt gæti almannahagsmuna og sinni því hlutverki sem það var kosið til. Í kjölfar þess hruns sem við búum við fyrir einu og hálfu ári síðan hefur enn ekki verið gerð úttekt á stjórnsýslunni og þeirri stjórnsýslu sem brást og leiddi af sér þetta hrun. Það sitja allir með hendur í skauti og bíða eftir skýrslu rannsóknarnefndar þingsins sem enginn veit í rauninni hvað er. Það er til stofnun sem heitir Ríkisendurskoðun sem á að sjá um að gera stjórnsýsluúttektir þegar út af bregður. Hún hefur farið inn í stofnanir og kvartað yfir útgjöldum til kaupa á strokleðrum og ljósritunarvélum en hún hefur enn þá ekki skoðað Seðlabanka Íslands sem tapaði nærri því 350 milljörðum á einu bretti. Hún hefur ekkert gert í málinu.

Aðspurður sagði ríkisendurskoðandi fyrir fjárlaganefnd að þeir hefðu farið yfir ársreikninga Seðlabankans. Ég hef tekið þetta mál upp á vettvangi fjárlaganefndar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar en það er ekki áhugi á því í fjárlaganefnd að fá Ríkisendurskoðun til að gera stjórnsýsluúttekt á Seðlabanka Íslands. Það er ekki áhugi á því að fá hana til að gera úttekt á Fjármálaeftirlitinu eða samskiptum þessara stofnana við viðskiptaráðuneytið. Þarna brást kerfið algerlega en hefði átt að koma í veg fyrir það hrun sem við stöndum frammi fyrir í dag. Það þarf að koma í ljós hverjir tóku ákvarðanir í þessum málum og hjá þessum stofnunum. Það þarf að koma í ljós hvað brást og það er ekki hægt að benda endalaust á Davíð Oddsson og kenna honum um allt. Þó að syndir hans séu kannski stórar er hann ekki eini maðurinn og eina svarta peðið í þessu öllu saman. Hv. þingmenn hljóta (Forseti hringir.) að beita sér fyrir því sjálfir ef fjárlaganefnd gerir það ekki að gerð verði ítarleg stjórnsýsluúttekt á þessum stofnunum til að menn komist til botns í því (Forseti hringir.) og gæti hagsmuna almennings.