140. löggjafarþing — 76. fundur,  21. mars 2012.

meðferð sakamála.

622. mál
[16:49]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að leggja áherslu á það mikilvæga atriði sem kom fram hér áðan, þ.e. að koma í veg fyrir að þessi samtök festi rætur. Það verður best gert með því að lýsa þau ólögleg og banna starfsemi þeirra frá upphafi gegn hörðum viðlögum og koma þannig í veg fyrir að þessi félagsstarfsemi sé yfir höfuð til staðar nema hugsanlega í reykfylltum kjallaraherbergjum einhvers staðar, að merkin verði bönnuð. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að þau festi rætur.

Eins og þetta frumvarp liggur fyrir get ég ekki séð að það muni koma í veg fyrir að þau festi rætur. Þau munu halda áfram að vera með þeim hætti sem þau eru. Ég met það við hæstv. ráðherra að hann fer mjög varlega í þessu máli, ég tek það fram. Engu að síður tel ég ef til vill þess virði að skoða rækilega hina leiðina fyrst, eins og fram hefur komið hjá mörgum þingmönnum, áður en málið verður hugsanlega opnað enn meira og farið út í alls konar útfærslur á því til viðbótar við það sem hæstv. ráðherra leggur fram.