141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:20]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum Róberti Marshall fyrir góða ræðu, það var gaman að hlusta á hana. Hann var að tala um sáttina og hvað það væri mikilvægt að finna þennan samhljóm eins og við lögðum af stað með í þessa ferð og ákveðið var með „consensus“ að halda þjóðfundinn og velja fólk í stjórnlaganefnd.

En hvað á að gera ef minni hlutinn, sem oft er kallaður því gildishlaðna orði stjórnarandstaða, vill ekki koma að borðinu eins og mér hefur virst vera, t.d. á þeim fundum þegar við boðuðum stjórnlagaráð aftur saman í fjóra daga og minni hlutinn, stjórnarandstaðan, vildi bara ekki mæta á þann fund og ekki taka þátt í því samtali? Á þessi minni hluti að hafa neitunarvald í málinu?

Annað sem mig langar að nefna er að stjórnarskrá er gríðarlegt hagsmunamál. Sennilega er þetta stærsta hagsmunamálið sem við erum með í þinginu. Við erum að fjalla um auðlindir landsins og hvernig skipting þeirra á að vera. Við erum að fjalla um hluti sem koma við okkur þingmenn, t.d. kjördæmin, jafnt vægi atkvæða. Við skulum til dæmis gera okkur grein fyrir því að jafnt vægi atkvæða þýðir að margir landsbyggðarþingmenn sem hér eiga sæti detta út af þingi og einhverjir aðrir úr öðrum landshlutum koma inn í staðinn.

Af hverju í ósköpunum ætti að nást sátt um þessi atriði?