144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[15:21]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á bls. 33 í þessum kafla stendur, með leyfi forseta:

„Á sama hátt og gildir um tilskipun 2013/36/ESB er það vilji íslenskra stjórnvalda að löggjöf á sviði fjármálamarkaða sé á öllum tímum í samræmi við þær lágmarkskröfur sem Evrópusambandið setur fjármálafyrirtækjum á innri markaði.“

Það er ljóst af andsvörunum hérna áðan og því sem fram kom í ræðu ráðherrans að við erum með mun strangari kröfur hvað varðar kaupaukann eða breytileg starfskjör, mun strangari. Þetta eru því ekki lágmarkskröfur Evrópusambandsins heldur miklu strangari kröfur. Mig langar því að spyrja: Gerum við á fleiri stöðum strangari kröfur en lágmarkskröfur Evrópusambandsins, án þess að ég nefni neitt ákveðið? Það hefur stundum verið sagt að við hefðum nú betur gert það hér á árum áður.