144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:52]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Kannski fer lengsti tíminn hér í að ræða þessi breytilegu starfskjör, bónusa eða kaupauka eða hvað við eigum að kalla það. Það er kannski ekki furða og ekki síst vegna þess að ég held að það séum ekki bara við í þessum þingsal sem höfum áhyggjur af því heldur einnig hinn venjulegi viðskiptamaður bankanna. Fólk hefur velt fyrir sér, og það geta verið litlir eða stærri viðskiptamenn bankanna sem hafa velt því fyrir sér, hvort bankinn sé að gera það besta fyrir viðskiptamanninn eða það besta fyrir bankann. Það er því ekki furða að þetta sé rætt.

Ég skil það þannig að þetta sé í þessum lagabálki vegna þess að almennt er fyrirtækjum ekki bannað að setja kaupauka. Hvaða fyrirtæki sem er, þó það sé ekki í uppmælingu eða sé ekki í þessu, þá geta fyrirtæki sett kaupauka. Þess vegna er þetta sett inn í þetta frumvarp um fjármálastofnanir vegna þess að verið er að setja ramma utan um það. Um þau gilda önnur lög en almennt um kaupauka. Þess vegna ætlum við að segja: Þið megið setja kaupauka upp á 25% en við erum sem sagt að banna þeim að setja meira en það. Ég skil þetta þannig.

Ef hv. þingmaður gæti aðeins talað um þetta með mér og svo hitt að ef við viljum enga kaupauka þá bara bönnum við það, þá fer þetta niður í núll og það kemur í raun ekkert málinu við þó að 100% kaupauki sé leyfilegur í Noregi eða Danmörku.