144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:54]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar vangaveltur og spurningar. Það er alveg rétt að kaupaukar tíðkast í öllum fyrirtækjum og það er ekkert aðfinnsluvert við það. Það getur verið mjög gott að hafa kaupauka og jafnvel fyrir starfsmenn sem eiga í samskiptum við neytendur almennt. En kannski þarf að setja mörkin þegar neytandinn er að fara að voga mjög stórum hluta af eign sinni, t.d. að fjárfesta, þá þarf ráðgjöfin að vera mjög vönduð og ekki höll undir áhættutöku. Kannski þarf að gera greinarmun á þessu líka, ekki bara að þetta sé algilt um alla starfsmenn eða eitthvað slíkt. Kannski er í lagi að þeir séu meira og minna á kaupaukum en þó ekki ef þeir veita ráðgjöf um stórar ákvarðanir í fjármálum einstaklinga — smærri ákvarðanir, skiptir kannski engu máli, við ættum ekki að gera svo mikið úr forsjárhyggjunni að ekkert sé hægt að gera.

Varðandi seinni spurninguna sem nú er hrokkin úr höfðinu á mér. (VBj: … að það kemur málinu ekkert við hvað er leyft annars staðar.) Ég tek alveg undir (Forseti hringir.) það sjónarmið. Auðvitað getum við horft til reynslu annarra þjóða og séð hvað þær hafa kosið að gera. Ég held hins vegar að við ættum að reyna að sýna aðgæslu og reyna að læra það sem best hefur tekist en ekki það sem verst hefur verið gert. Ég furða mig á því varðandi Evrópusambandið, ég veit að ég er kannski ekki á sama máli og hv. fyrirspyrjandi, hve kærulaust það er í því að leyfa svona mikla kaupauka til stjórnenda og æðstu stjórnenda sem geta tekið mikla áhættu með stórar fjármálastofnanir án þess að þurfa að taka afleiðingunum. Ég furða mig á því hve menn eru áhyggjulitlir þarna í lagasmíðinni.