144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[16:58]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hugleiðingar um þessa kaupauka. Það er alveg ljóst að við þurfum í okkar fjármálafyrirtækjum að hafa á að skipa hæfu fólki sem hugsanlega ætti val um að vinna annars staðar og erlendis. En það eru tvær leiðir að settu marki, það er annaðhvort með góðum mannsæmandi launum, sem er þess virði að keppast um, og gott fólk keppist um að geta fengið slík störf, eða þá með kaupaukum, lægri föstum launum en kaupauka sem ræðst af árangri fyrirtækisins. Í tilfellinu með fjármálafyrirtæki þá er slík árangurstenging eiginlega ávísun á áhættutöku. Það er vandamálið. Þess vegna erum við að ræða þetta hér og þess vegna er tilefni til þess, eins og hv. þingmaður hefur bent á, að skoða þetta og gaumgæfa mjög vel. Ég tek undir það.