144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála því að það væri strax til bóta að sjá einhverja áætlun um þetta og það er umhugsunarefni, ég hef velt þessu fyrir mér þegar þetta bar á góma hér. Það er svo langt síðan að menn voru að leggja drög að því hvernig ætti í áföngum að bakka út úr þessari allsherjartryggingu á innstæðum að við sátum yfir hugmyndum um það, ég og Gylfi Magnússon, þáverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, strax á árinu 2010. Hugmyndin var sú að fara af stað einmitt með skrefum þar sem tilteknir stórir aðilar fengju um það tilkynningu að frá og með einhverjum tímapunkti yrðu innstæður þeirra ekki tryggðar. Langbest er að gera þetta þannig að gefa út þær tímasetningar fyrir fram og svo rennur það tímabil sitt skeið á enda og enginn tekur eftir neinu, þá er komið á eðlilegt ástand. Auðvitað vilja menn áfram tryggja að þetta valdi engum óróleika.

Það standa nánast engin rök eftir fyrir þeirri tryggingu, alla vega ekki þegar við horfum á stóru bankana firnasterkt fjármagnaða, með upp undir 30% eiginfjárhlutfall og ærið lausafé, mjög vel stadda gagnvart því jafnvel þó svo færi að einhverjir tækju út einhverja aura í taugaveiklun út af því að allsherjartrygging ríkisins væri að þynnast út.

Í öðru lagi langar mig — af því hv. þingmaður kom líka inn á spurninguna um dreifða eignaraðild, í raun og veru hefur mjög margt gott borið á góma í þessari umræðu og efnahags- og viðskiptanefnd hefur mikið veganesti til að vinna í þessum málum, mun sennilega ekkert vanta nema tíma til að fara yfir allt sem hér hefur verið nefnt í þeim efnum — að minna á að á árunum upp úr aldamótum 2000 til 2002–2003 flutti sá sem hér stendur nokkrum sinnum frumvarp um að setja þak á hámarkseign einstakra aðila í bönkum. Ég held ég muni það rétt að ég var þar að miða við 8% eignarhlut. Þá gerðist það jafnan að þáverandi hæstv. forsætisráðherra spratt upp og tók undir með mér, en viðskiptaráðherra þeirrar (Gripið fram í: Fram á síðustu stund.) — fram á síðustu stund, þar til blaðinu var snúið við — en (Forseti hringir.) viðskiptaráðherra þáverandi ríkisstjórnar fann þessu allt til foráttu og taldi að þetta væri ekki hægt samkvæmt EES-reglum og öðru slíku.