144. löggjafarþing — 76. fundur,  3. mars 2015.

fjármálafyrirtæki.

571. mál
[18:55]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir ræðuna. Hann fjallaði af svo djúpri þekkingu um efnisinntak þessa tiltölulega flókna máls að ég fór að velta því fyrir mér hvort hann yrði ekki að draga til baka sögufræga yfirlýsingu sína frá fyrri árum, sem að vísu er á prenti einhvers staðar, um að hann hafi ekkert vit á bankamálum. (Gripið fram í.) Ég held að hún sé fallin með skörulegri ræðu hv. þingmanns.

Ég tel að það sem hann hefur vakið athygli á og rætt, bæði nú og áður í dag, um áhættumatsnefndina og í raun og veru um bæði samsetningu hennar og stöðu innan fjármálafyrirtækjanna sé mikið umhugsunarefni og eitt af því sem efnahags- og viðskiptanefnd hljóti að þurfa að gaumgæfa og taka til skoðunar. Það tengist náttúrlega öðrum þætti sem er spurningin um það hvort slíkir aðilar eigi að geta verið með í kaupaukakerfunum eða hinum breytilegu starfskjörum, eins og það heitir, sem ég sé öll tormerki á og hefði gjarnan viljað sjá að menn héldu sig við það sem ákveðið var 2010 og staðfest með reglum Fjármálaeftirlitsins, að þeir aðilar væru þar alveg undanskildir.

Í þriðja lagi nefndi hv. þingmaður annað atriði sem ég alla vega hugsa mér að grafa mig dálítið betur ofan í og það er spurningin um lánafyrirgreiðslu til starfsmanna, stjórnenda og annarra slíkra. Það vitum við að er mjög varasamt. Vissulega er búið að taka á ýmsu sem menn sáu eftir hrunið og í skýrslu rannsóknarnefndar að var hluti af ósiðunum, þessar gríðarlegu lánveitingar án áhættu sem starfsmenn gátu gengið að hjá bönkunum til að kaupa í þeim hlutabréf og allt það. En eftir stendur að mjög vandasamt er að fjármálastofnun, að banki hafi heimildir til að veita starfsmönnum sínum lán, ég tala nú ekki um stjórnendum eða ríkisstarfsmönnum. Best væri auðvitað að það fyrirkomulag væri ekki við lýði nema þá að það væri bundið við venjuleg neytendalán, þau (Forseti hringir.) sem allur almenningur þarf á að halda dags daglega. Einu sinni var sú regla viðhöfð, a.m.k. í einni fjármálastofnun sem ég þekkti, að biðja starfsmenn um að vera með viðskiptareikning sinn í annarri stofnun.